140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat um það í inngangsorðum mínum að þetta snertir okkur öll í einum eða öðrum skilningi. Það getur snert okkur sem notendur, neytendur eða greiðendur til þessarar þjónustu. Ég hugsa að það eigi við um mörg okkar hér inni og það á við um fyrirtækin almennt í landinu að þau eru greiðendur til þessarar þjónustu. Það þarf að horfa til þess. Síðan er þetta spurning um öryggi og þetta er spurning um það orð sem af þessari starfsemi fer.

Í Finnlandi var landslénið einkavætt eins og hér var gert illu heilli — hv. þingmaður minnist þess eflaust úr stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins þegar það var gert — en fyrirtækið varð gjaldþrota og finnska eftirlitið, Fikora, varð að taka starfsemina yfir. Við erum einfaldlega að reyna að búa svo um hnútana að hér sé örugg starfsemi á ferðinni og að gætt sé að ýmsum stöðlum.

Síðan er það sem snýr að markaðnum. Þar sem ríkir frjáls samkeppni, samkvæmt kenningunni alla vega, á markaðurinn að sjá um verðlagið, að sjá til þess að verðlagið sé ekki úr hófi fram, en þar sem einokun ríkir gildir einfaldlega annað. Þá þarf einhvers konar regluverk að koma til. Síðan getum við deilt um það hvort gjaldið fyrir það er rétt, við getum deilt um einstaka þætti, t.d. hvað leyfisveitingin á að ganga til margra ára.

En það er um þetta tvennt að velja, tel ég. Annars vegar hvort við viljum eiga þetta, hafa eignarhaldið á hendi opinberra aðila, eða hafa við lýði regluverk. Það er það sem við erum að setja með þessum lögum.