140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég kom að þessum málum fyrir rúmu ári var farið mjög rækilega yfir þá valkosti sem við stæðum frammi fyrir. Einn var sá að taka eignarhaldið í eigu ríkisins, sem einhverjir mundu kalla þjóðnýtingu, nema við gerðum það á siðmenntaðan hátt og semdum um prísinn, sem hefði að mínu mati verið sanngjarn, þ.e. verðið sem greitt var þegar fyrirtækið var selt úr hendi ríkisins á sínum tíma. Það voru nú einhverjar efasemdir um að menn yrðu svo örlátir í viðskiptum, það kynnu að verða hærri kröfur. Jafnframt var varað við því á þeim tíma að við færum þá leið. Ef við ætluðum að reynast strangir gæslumenn fyrir ríkissjóð hvað verðlagið snertir, hvað þá ef við beittum einhvers konar þvingunarúrræðum, þá værum við hugsanlega orðin skaðabótaskyld. Þess vegna var farin sú leið að hugsa hvernig við gætum tryggt almannahag með regluverki varðandi verðlag, kostnaðargreiningu á verðlagi, og tryggt aðra þætti sem snúa að okkur öllum á viðunandi hátt. Þá varð þessi leið fyrir valinu.

Ég vona að okkur hafi tekist vel til. En það er bara gott, nauðsynlegt og mikilvægt að þingið fari vel yfir þessi mál. Í aðdragandanum höfum við gert það mjög vel. Við teljum okkur hafa gert það mjög vel og þetta er niðurstaðan.