140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:10]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni af þeirri ræðu sem hv. þm. Eygló Harðardóttir flutti áðan eru kannski tvö atriði sem ég taldi ástæðu til að leiðrétta. Ég skildi upphaf ræðu hennar þannig — ég held að ekki hafi verið neinn vafi á því að hún ræddi um það að Alþingi hefði sett ramma utan um lífeyrissjóðina sem meðal annars tryggði það að allir væru í lífeyrissjóðum. Það er auðvitað grundvallarmisskilningur sem þingmaðurinn ætti að vita. Þessir lífeyrissjóðir voru stofnaðir fyrst í kringum 1969 og upp úr því, og það gerðist í kjarasamningum. Það var síðan á árinu 1995 sem aðilar vinnumarkaðarins sjálfir gerðu nýjan samning á þessu sviði sem er stofninn í þeim lögum sem sett voru árinu 1997. Alþingi hefur og að mörgu leyti góðu heilli ekki haft frumkvæði að því að skipta sér mikið af starfsemi lífeyrissjóðanna. Nauðsynlegt er að þetta komi fram, og halda því í heiðri hvernig að þessu var staðið í upphafi.

Þó að ég ætli ekki að fara að ræða þingsályktunartillögu sem ekki er á dagskrá, þá er það nú þannig hvað varðaði rannsóknina — af því að það er tilefni til að fara aðeins yfir það — að gerð er grein fyrir þessu á bls. 14 og 15 í fyrsta bindi af skýrslu úttektarnefndarinnar. Þar fer nefndin mjög vandlega yfir það að þeir hafi jú ekki haft sömu heimildir og rannsóknarnefndin.

Engu að síður, eins og þeir orða það sjálfir, með leyfi forseta:

„Aftur á móti voru fyrirsvarsmenn lífeyrissjóðanna samstarfsfúsir og létu þeir umbeðin gögn og skýrslur góðfúslega í té.“

Öll þau gögn sem rannsóknarnefndin vildi fá fékk hún. Jafnframt gerir nefndin grein fyrir því að hún hafi áskilið sér að ef eitthvað kæmi fram sem varðaði almannahagsmuni mundi hún þrátt fyrir Persónuvernd birta allar þær upplýsingar í sinni skýrslu. Það var því ágætlega staðið að allri þessari upplýsingasöfnun.

Síðan aðeins að lokum um samtryggingu hagsmuna. Það má upplýsa hv. þingmann um að þeir hagsmunir sem þarna eru á bak við eru hagsmunir launafólks, þ.e. atvinnurekendur og verkalýðsfélög taka að sér sameiginlega að gæta hagsmuna félagsmanna, jafnvel þótt þeir séu farnir af vinnumarkaði vegna aldurs eða vegna örorku. Þeir fá mikið vald, gífurlegt vald, það er rétt, þeir fara með mikið af peningum. Ég kem betur að því í ræðu minni á eftir, en ástæðan fyrir því kannski hversu vel fór með lífeyrissjóðina er sú að það vald er ballanserað á milli þeirra tveggja.

Spurninguna um að þeir tækju ákvörðun (Forseti hringir.) um vegaframkvæmdir, hana skildi ég satt best að segja ekki.