140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Þegar lífeyrissjóðirnir högnuðust sem mest fóru sumir lífeyrissjóðir út á þá braut að bæta réttindi sjóðfélaga sinna. Það gerði Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins en lífeyrissjóðir sveitarfélaganna ekki. Sumir lífeyrissjóðanna hafa síðan skert réttindin að einhverju leyti. Sá hópur sem sennilega hefur orðið fyrir mestri skerðingu er hópurinn í B-deild lífeyrissjóðsins. Sá hópur fylgir launavísitölu opinberra starfsmanna og þegar hún liggur lægra en neysluvísitalan eða verðbólgan verður hann fyrir skerðingu.

Varðandi meint lagabrot þegar ég var formaður stjórnarinnar var það ekki svo. Þá var þessi munur á mati á eignum (Gripið fram í.) og skuldbindingum sjóðsins ekki umfram 10% eftir því sem ég kemst næst. (PHB: Þá voru sérlög í gildi.) Síðan var breytt þessum almennu lögum sem taka, a.m.k. núna, til allra lífeyrissjóðanna. Ég ítreka að það mun hafa komið fram tillaga frá fulltrúum launafólks í sjóðnum um iðgjaldabreytingu. Ég er sjálfur farinn út úr stjórn þarna fyrir alllöngu en er tilbúinn að svara öllu sem til mín er beint um mína stjórnartíð og taka þátt í umræðu um stöðu sjóðsins núna. Mér mislíkar hins vegar hvernig ég finn að ýmsir reyna að grafa undan Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og lífeyrisréttindum fólks sem sat við samningaborðið. Ég þekki það mjög vel vegna þess að ég sat við það samningaborð og var þá oft stillt upp við vegg (Forseti hringir.) þar sem sagt var: Ja, hvort viljið þið kjarabæturnar eða standa vörð (Forseti hringir.) um lífeyrisréttindin? Þetta er bara veruleikinn og ef það á að fara að hafa núna af fólki (Forseti hringir.) með því að deila og drottna og reka fleyga inn í raðir launafólks er það ljótur leikur.