140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Eftir nýfallinn dóm Hæstaréttar um gengistryggð lán er stefna ríkisstjórnarinnar um sértækar einstaklingsbundnar lausnir komin í algjört öngstræti, stefna í anda frjálshyggjumódelsins sem leggur áherslu á að einstaklingar leiti lausna í gegnum dómskerfið og að velferðarkerfið aðstoði aðeins þá sem þurfa á mestri aðstoð að halda.

Dómstólar dæma út frá málsatvikum í hverju máli og því getur fordæmisgildi dóma verið afar takmarkað. Dómstólar dæma ekki út frá réttlætissjónarmiði, heldur laganna bókstaf. Dómar geta því aukið á misskiptinguna í samfélaginu og það tel ég einmitt vera að gerast núna.

Við eigum von á mörg þúsund málaferlum því að um 70 þús. gengistryggð lán voru tekin fyrir hrun, málaferlum sem eru tímafrek, kostnaðarsöm og munu leiða til dómsniðurstaðna sem munu vekja upp fleiri spurningar en svör. Flýtimeðferð og hópmálsóknir munu hraða dómsmálaferlinu en ekki koma í veg fyrir að við þurfum að bíða í nokkur ár eftir að sjá endanlega niðurstöðu.

Frú forseti. Ég hef orðið vör við mikla óþreyju hjá fólki sem tók gengistryggð lán. Ég held því að margir meti stöðuna þannig að það sé betra að setja öll ágreiningsmálin í samningsferli eða gerðardóm til að losna við áralanga bið og kostnað vegna málaferla. Við stjórnmálamenn eigum ekki að gefast upp á samningsleiðinni á þeim forsendum að allir sem tóku gengistryggð lán óski þess heitast að hreppa lottóvinning hjá Hæstarétti. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Leitum samninga og sátta.