140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 121/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

540. mál
[12:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að þau mál öll sem ég hef hér flutt og kem hér viku eftir viku og flyt eru auðvitað ekkert annað en aðlögun okkar að regluverki Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Við höfum gengist undir þá kvöð að þurfa að taka við þeim breytingum sem þar eru gerðar, svo fremi sem sameiginlega EES-nefndin tekur ákvörðun um að fella það inn í EES-samninginn. Það er auðvitað aðlögun og sjálfsagt að rifja það upp vegna þess að hér fara menn oft bæði af hjörum og límingum þegar talað er um aðlögun eins og einhvers konar vanhelgi hvíli á þeim. Staðreyndin er samt sú að til dæmis fyrr á þessum morgni greiddum við atkvæði um fjöldamargar aðlaganir og því miður höfum við ákaflega takmarkaðar leiðir til að hafa einhver áhrif á þær. Það ættu þeir að hafa í huga sem rífa sig niður í rass hvenær sem þeir geta yfir því að verið sé að aðlaga sig Evrópusambandinu. Þeir hafa flestir, sumir sennilega mörg hundruð sinnum, tekið þátt í því með atkvæðagreiðslu.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um kostnað og hver á að sjá um þetta þá vísa ég til orða minna sem fram komu undir lok framsögu minnar fyrir málinu, að hæstv. umhverfisráðherra mun leggja fram lagafrumvarp. Það lagafrumvarp verður ekki fram lagt öðruvísi en að búið verði að leggja mat á kostnaðinn sem af því hlýst. Sömuleiðis mun þar koma fram hvernig kostnaður deilist á sveitarfélög og eftir atvikum ríkisstofnanir. Eins og þessum málum er núna háttað deilist þessi kostnaður en þó hefur hann í vaxandi mæli færst yfir á sveitarfélögin, að því er ég best veit, sem mörg hver hafa haft frumkvæði að auknum mælingum og auknu eftirliti. með tilliti til heilsu borgaranna sem búa innan vébanda þeirra.