140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðalána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:51]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur farið ágætlega yfir þá skýrslu sem hér er til umræðu og tilurð hennar. Hún tengist beint þeirri umræðu sem staðið hefur allt frá árinu 2008 um almenna og flata lækkun húsnæðislána og annarra lána heimilanna. Í þeirri umræðu verður að hafa í huga að slík aðgerð kostar mikla fjármuni sem afla má, annað af tvennu, beint eða óbeint úr ríkissjóði eða frá kröfuhöfum. Í þessu efni hafa ýmsar hugmyndir verið reifaðar. Ef afla á þessara fjármuna frá kröfuhöfum er ljóst að það verður ekki gert bótalaust, standi veð eða aðrar tryggingar á annað borð fyrir skuldinni. Þetta má lesa úr nýlegum gengislánadómi Hæstaréttar og raunar fjöldamörgum öðrum dómum Hæstaréttar sama efnis sem allir fela í sér að eignarréttindi verði ekki skert bótalaust. Þá er ekki annarra leiða að leita en að fjármagna aðgerðina úr ríkissjóði, beint eða óbeint.

Þórarinn G. Pétursson aðstoðarseðlabankastjóri fer ágætlega yfir svokallaða seðlaprentunarleið á visir.is í dag. Niðurstaða hans er býsna skýr: Kostnaðurinn af þeirri aðgerð lendir á endanum alltaf á ríkissjóði sem þýðir að skera verður niður útgjöld, m.a. til velferðarmála.

Ef hin almenna aðgerð sem gagnast mun öllum sem skulda er fjármögnuð beint eða óbeint úr ríkissjóði mun hún koma niður á útgjöldum til velferðarmála og koma beint niður á þeim sem helst eiga undir högg að sækja. Ég get ekki tekið undir eða fylgt slíkri aðgerð.

Einnig hafa komið fram hugmyndir um stofnun sérstaks afskriftasjóðs sem meðal annars verði fjármagnaður með sérstökum skatti á lífeyrissjóðina og með því að ráðstafa þangað vaxtabótum næstu ára. Við hvort tveggja geri ég mjög alvarlegar athugasemdir. Ef lífeyrissjóðirnir verða skattlagðir til þess arna þýðir það einfaldlega að öldruðu og örkumla launafólki verður gert að standa straum af aðgerðinni með skerðingu réttinda en flestir í þeim hópi eru í engum færum til að taka slíkar álögur á sig, auk þess sem ég tel slíkt ekki siðferðilega réttlætanlegt. (VigH: Það er búið að gera það.) Jafnframt væri það einungis aldrað og örkumla launafólk á almennum vinnumarkaði sem mundi borga brúsann, (EyH: Hagsmunir lífeyrissjóðanna.) en sjóðfélagar í opinberu lífeyrissjóðunum þurfa ekki að þola skerðingu lífeyrisréttinda hvað sem eignastöðu sjóðanna líður. (EyH: Hvað viljið þið þá gera?)

Hvað með vaxtabætur? Þær, frú forseti, eru tæki sem ætlað er til tekjujöfnunar fyrir fólk sem hefur skerta greiðslugetu af einhverjum ástæðum, einkum félagslegum. Þær á ekki að nota til almennrar lækkunar á höfuðstól skulda fyrir alla. Ég tel jafnframt æskilegt að í stað þess að ráðstafa vaxtabótum með þeim hætti verði þær auknar og þeim stýrt svo að skuldurum verði gert auðveldara að standa við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í því efni ætti sérstaklega að hyggja að því að draga úr þeim eignatengingum sem nú draga mjög úr virkni vaxtabótakerfisins.

Síðast en ekki síst eiga stjórnvöld að einbeita sér að því að styrkja gengi krónunnar með skynsamlegri efnahagsstjórn líkt og nú er gert. Það lækkar vexti og verðlag, eykur kaupmátt og þannig greiðslugetu almennings, auk þess að stuðla að því að fasteignaverð nái jafnvægi. Þannig getur lækkun fasteignaverðs byrjað að ganga til baka og hækka í samræmi við eðlilegar efnahagslegar og markaðslegar forsendur. Þannig vex eigið fé almennings og skuldir lækka.

Þetta tekur tíma en byggir á því meginsjónarmiði að ráðstafa beri takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs þannig að þeir nýtist í samræmi við þarfir almennings og þess velferðarsamfélags sem við viljum búa í. Það er sú leiðsögn sem skýrsla Hagfræðistofnunar ætti að veita okkur.