140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:14]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Aðalatriði þessa máls er að horfa á orkuskipti í samgöngum til komandi ára vegna þess að útlit er fyrir að eldsneytisverð fari hækkandi í næstu framtíð og verði svo um langt árabil samkvæmt mati sérfræðinga.

Mig langar samt að velta fyrir mér einum anga þessarar umræðu og ég veit að við hv. þm. Birkir Jón Jónsson erum þar á að giska á sömu blaðsíðu. Við verðum að horfa til þess hvað íbúar dreifðustu byggðanna þurfa að verja miklum fjármunum til olíukaupa. Þeir þurfa að sækja þjónustuna mjög langt að, ég nefni sem dæmi að þungaðar konur á Þórshöfn þurfa að keyra 250 kílómetra á sjúkrahús á Akureyri og aftur til baka, það gerir 500 kílómetra. Það er bara til að ná í sjálfsagða þjónustu eins og fæðingarþjónustu. Fólk mjög víða úti á landi býr við þau ósköp að þurfa að nota bílinn í mjög ríkum mæli og við þurfum að horfa til þess þáttar (Forseti hringir.) í umræðunni þegar við jöfnum kjör á Íslandi og það viljum við náttúrlega öll.