140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Það er afskaplega mikilvægt fyrir umræðuna að fá þessar tölur á hreint og ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma fram með þessar tölur sem eru auðvitað ákveðinn grunnur í umræðunni um skattheimtu og gjaldlagningu á jarðefnaeldsneyti sem við Íslendingar erum því miður allt of háðir. Þess vegna lagði ég áherslu á það fyrr í dag í ræðu minni að auðvitað ættum við að sækja miklu hraðar og betur fram hvað varðar orkuskipti í samgöngum og horfa frekar til þeirra lausna í framtíðinni en úrelts eldsneytis sem jarðefnaeldsneyti er að verða að mörgu leyti þegar kemur að bílum, enda lausnirnar allt aðrar þar í húfi.

Þessar tölur eru komnar fram. Nú um stundir er það svo að hin ágæta norræna velferðarstjórn heldur vel aftur af sér þegar kemur að skattprósentunni í olíu og bensíni (SIJ: Hverjir voru í stjórn 1991–1995?) en það voru einmitt hinir svokölluðu hrunflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem á árabilinu 1995–2005 settu Íslandsmet í hlut ríkisins í bensín- og olíuverði. Þær tölur liggja algerlega fyrir svart á hvítu, árið 1999 var skatthlutfallið 73% hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum en er núna 48% og þegar kemur að dísli var hlutfallið 60% hjá sömu aðilum árið 2005 en er núna 44,3%.

Frú forseti. Ég spyr: Hvort eru það sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem eru skattpínendur í þessu efni eða hin norræna velferðarstjórn? Svarið er augljóst.