140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Skúli Helgason sé fylgjandi því að skoða einkavæðingarferlið hið síðara. Ég verð að viðurkenna að það kemur svolítið á óvart að sjá þessa tillögu, sem er þó góðra gjalda verð og allt það, vegna þess að ég hef ekki séð vilja hv. stjórnarþingmanna til að upplýsa hvað er í gangi.

Menn hafa talað um að árið 2002 hafi verið gallað ferli og ónógt eftirlit en nú er ekkert ferli og ekkert eftirlit. Ég vek athygli á því að framreiknuð framlög til Sögu og VBS eru hærri en vegna einkavæðingarinnar 2002. Það var sett á laggirnar sérstök nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, til að gera okkur auðveldara fyrir að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þar er kæra mín um framgöngu ríkisins í máli Byrs og SpKef og þar sitja hv. stjórnarliðar á þeirri tillögu. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður hefur ekki verið neitt í því að hjálpa til við að fá upplýsingar um samningana á milli gömlu og nýju bankanna. Við höfum aldrei fengið upplýsingar um einkavæðinguna í gegnum Vestiu og ég hef ekki fengið hljómgrunn eða stuðning frá neinum hv. stjórnarþingmanni. Auðvitað mætti nefna einkavæðinguna á Sjóvá líka. Við getum talað um Sjóvá, Vestiu, samningana milli gömlu og nýju bankanna, Byr og SpKef, svo getum við bætt við fleiri málum en við skulum bara halda okkur við þessi, og ég spyr: Mun hv. þingmaður með einhverjum hætti beita sér fyrir því að það verði upplýst hvað þarna var á ferðinni og að fólk fái eðlilegar upplýsingar um það ferli og þá samninga sem þar voru á ferðinni?