140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

108. mál
[17:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna mjög umræðu um þetta frumvarp. Það er tímabært að það komist þó alla vega til 1. umr. Þetta er mjög mikilvægt mál.

Við í Hreyfingunni, þá Borgarahreyfingunni, urðum illilega fyrir barðinu á kjörstjórnum við síðustu kosningar þar sem tvær kjörstjórnir, þ.e. Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæmis suður, höfnuðu þeim undirskriftalistum sem við lögðum fram þegar við vorum að bjóða fram í kosningunum. Sú ákvörðun var ekki rökstudd heldur var viðhorfið það að þetta væri ekki á viðurkenndum pappír, sem þeir kölluðu svo. Þó vorum við búin að fá það vel skilgreint í dómsmálaráðuneytinu á sínum tíma að undirskriftasöfnunin væri að fullu eðlileg og algerlega í samræmi við lög.

Þarna voru pólitískt kjörnar kjörstjórnir að koma í veg fyrir að ný framboð gætu boðið fram, það var mat okkar á þeirri stöðu. Það mál var síðan leiðrétt í landskjörstjórn og framboðin voru dæmd fín, en það hafði kostað okkur gríðarlega vinnu að safna aftur öllum þeim undirskriftum.

Ég er nú meðflutningsmaður að málinu en mig langar að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort hann geti hugsað sér að í kjörstjórnum yrði skilyrðislaust fulltrúi, áheyrnarfulltrúi, frá öllum þeim sem eiga sæti á Alþingi, öllum flokkum, en jafnframt áheyrnarfulltrúar frá nýjum framboðum sem bjóða fram þannig að þau geti þá fylgst með umræðu og ákvarðanatöku sem á sér stað í kjörstjórnum varðandi einmitt ákvarðanir um ný framboð. Mér finnst mjög mikilvægt að ný framboð fái aðgang að því ferli sem fer fram enda skiptir þetta þau náttúrlega gríðarlegu máli og tryggir betur framgang lýðræðisins að mínu mati.