140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

staða ættleiðingarmála.

[10:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnast þær tillögur sem settar hafa verið fram og hv. þingmaður vísar til mjög svo skoðunarverðar. Við þurfum einnig að horfa til fyrirkomulags á Norðurlöndum og taka mið af því, en sú nefnd sem ég vísaði til er að kortleggja þessi mál með hliðsjón af því sem gerist best í öðrum löndum.

Ég legg einnig áherslu á það sem ég sagði áðan um hlut Íslenskrar ættleiðingar og mikilvægi þess að við sem fjárveitingavald búum vel að þessum málaflokki. Það er mjög mikilvægt að vel sé tekið á móti þessum börnum, það kostar peninga og við þurfum öll að beina sjónum okkar að þessum málaflokki þegar kemur að fjárúthlutun.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þetta er málaflokkur sem þarf að vera í gagnrýnni umræðu innan þingsins.