140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

nýtt hátæknisjúkrahús.

[15:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd fékk á sinn fund aðila sem sjá um utanumhald um væntanlega byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það var mjög athyglisverður fundur og margt nýtt kom þar fram. Fyrir liggur að ef af verður mun íslenska ríkið ráðast í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar sem í fyrsta áfanga einum hljóðar upp á 61 milljarð. Mér finnst undirbúningurinn ekki nægilega góður og vil nefna að auknar kröfur eru gerðar til svo stórra verkefna. Við sjáum það til dæmis með Vaðlaheiðargöng en ég tel að það sé verkefni sem þoli dagsljósið og fleiri skýrslur. Í rauninni hefur aðeins verið gerð ein skýrsla um þessa stærstu framkvæmd Íslandssögunnar og má í raun fullyrða að hún hafi ekki verið hlutlaus og eins vel úr garði gerð og hugsast getur vegna þess að Hulda Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, fékk sérfræðinga Hospitalitet í Noregi til að búa til þá skýrslu.

Ég spyr hæstv. velferðarráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að gera þurfi úttekt á þeim hagræðingarþáttum sem eiga að standa undir þeim kostnaði sem á að falla á íslenska ríkið. Reyndar er það sparnaður upp á 2,8 milljarða kr. Það er fullyrt að fækka eigi legudögum, færa bráðaþjónustu á einn stað og fara í dagþjónustu. Allt þetta á að gera án þess að segja upp starfsfólki og ég held að það þurfi bara þokkalega skynsemi til að sjá að þetta gengur ekki upp. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum það (Forseti hringir.) í sölum Alþingis hvort við þurfum ekki að fara í frekari rannsóknir og kannski einna helst hvort við þurfum ekki að taka umræðu um velferðarkerfið í heild sinni um (Forseti hringir.) hvort þetta sé sá leikur sem við viljum leika.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann. Hann er tvær mínútur í þessari umferð.)