140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú dálítið óhress með að taka eignarrétt af bændum þannig að ég gæti ekki fallist á þetta síðasta. En mig langar að spyrja hv. þingmann út í sæstrenginn sem hann er á móti. Nú er það þannig að íslensk heimili nota ekki nema 20 eða 30% af þeirri raforku sem hér er framleidd, hitt fer allt í útflutning, yfirleitt í gegnum ál, þannig að þjóðin sem heild græðir á hækkun orkuverðs.

Það eru önnur áhrif sem sæstrengur getur haft. Hann getur gert það að verkum að ekki þarf að yfirfylla miðlunarlónin. Hægt er að nýta þau margfalt betur ef hægt væri að flytja orku fram og til baka í gegnum sæstreng. Ég hugsa að eingöngu sparnaðurinn af því að hafa sæstreng — þá er hægt að nota yfirfallslónið betur, bókstaflega nýta það í botn — geti þýtt 20% meiri orkunýtingu með núverandi virkjunum, með einhverri smáviðbót reyndar en með núverandi ferli öllu. Ég hugsa að sú aukning ein mundi nægja öllum heimilum í landinu til notkunar.

Auðvitað eigum við Íslendingar að fagna því þegar orkuverð hækkar í heiminum líka hér á landi vegna þess að við flytjum mestallt af þessu út. Þess vegna gleðst ég alltaf þegar bensínverðið hækkar vegna þess að þá veit ég að álverðið hækkar og þá hækkar orkuverðið á Íslandi. Ég gleðst reyndar ekkert voðalega mikið en ég reyni að gleðjast.