140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég tel ekki hyggilegt að ganga lengra en gert er í þessu frumvarpi, ella hefði það verið gert. Þetta er ekki gert í fljótræði heldur að mjög yfirveguðu ráði þar sem menn hafa gaumgæft þessi atriði öll mjög rækilega og skoðað frá ýmsum hliðum.

Því er ekki að leyna eins og fram hefur komið í umræðu að það eru skiptar skoðanir um hvernig eigi að standa að þessum málum. Innan lögreglunnar heyrast þær raddir vissulega að eðlilegt sé að ganga lengra. Ég held hins vegar að þetta muni auðvelda lögreglunni viðureign hennar fyrir okkar hönd, samfélagsins, við skipulögð glæpasamtök.

Það er vissulega álitamál hvort banna eigi félagasamtök af því tagi sem hér var vísað til. Það er ekki til neitt einhlítt svar við því. Mín niðurstaða á þessari stundu er sú að ekki sé hyggilegt að gera það. Það hefur verið reynt sums staðar (Forseti hringir.) í ýmsum ríkjum Þýskalands og Kanada með misjöfnum árangri, en auðvitað á að hafa þessi mál öll (Forseti hringir.) til umræðu og skoðunar.