140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom víða við og er óhætt að segja að sá ágreiningur sem málið hefur verið sett í hefur svo sannarlega ekki verið því til framdráttar svo ekki sé meira sagt.

Hv. þingmaður hefur gert hér mjög að umtalsefni þær breytingartillögur sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er með í þessu máli, og raunar þær spurningar sem meiri hluti nefndarinnar ætlar að bera undir þjóðina í þessari skoðanakönnun. Í 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs er ákvæði um fullveldisframsal. Maður mundi ætla að það væri með byltingarkenndari hugmyndum ráðsins að koma með slíkar tillögur. Ef menn vilja spyrja þjóðina einhverra spurninga, eins og meiri hlutinn kaus að gera, blasir við að slík spurning á einna mest erindi við þjóðina.

Í þeim spurningalista sem þarna kemur fram er fyrst spurt um tillöguna í heild, hvort hún gæti orðið einhvers konar grundvöllur þingmáls, og síðan eru tíndir út einstaka þættir úr tillögunni sem ég hefði haldið að væru þeir þættir sem mönnum þætti einna mikilvægast að spyrja að. Hv. þingmaður er fyrrverandi þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hafði það á stefnuskrá sinni, og hefur að ég hygg reyndar enn þá, að Ísland eigi ekki að ganga í Evrópusambandið. Hvað telur hv. þm. Ásmundur Einar Daðason að sé ástæða þess að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilja ekki að þeirri spurningu sé bætt á spurningalistann?