140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Hong Kong, Kína, samningur sömu aðila um vinnumál o.fl.

603. mál
[15:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Norðdahl drap fingri á gamalt mein þegar hann sagði með nokkurri kerskni og kaldhæðni að það væri út af fyrir sig áhugavert að sjá að undirstrikað væri rækilega í samningnum að menn skyldu koma fram af tilhlýðilegri kristilegri siðsemd gagnvart dýrum og plöntum en mannréttindaákvæðin væru ekki skrifuð inn í fríverslunarsamningana. Hárrétt ábending hjá hv. þingmanni.

Þá vil ég segja honum það að áratugum saman voru þessir fríverslunarsamningar sem gerðir voru af hálfu EFTA fyrir hönd þeirra ríkja sem þar eiga aðild að jafnan þannig að ekki mátti minnast á mannréttindi. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn hafa tekið það upp í nokkuð þéttum mæli. Ég minnist þess þegar ég var hér fyrr á dögum, á mínum sokkabandsdögum í Alþingi og sat í EFTA-nefndinni, þá þótti það goðgá mikil ef menn drápu á slík mál og tóku þau upp. Það gilti ekki bara um þá sem tilheyrðu öðrum þjóðum í þessum samtökum heldur gætti þess ekki síður hjá íslenskum þingmönnum á þeim tíma. Íslensk stjórnvöld hafa fram á þennan áratug verið þeirrar skoðunar að ekki ætti að blanda saman fríverslun og mannréttindum. Það er fyrst og fremst fyrir árvekni þingmanna, reyndar þingmanna ýmissa þjóða, sem tekið hafa þetta mál upp og barist fyrir því á vettvangi þingmannanefndarinnar sem málefnið er þó komið á þennan rekspöl.

Ég held að hv. þingmaður þekki vinnu þessara samtaka í gegnum ráðgjafarhópinn sem meðal annars aðilar vinnumarkaðarins eiga aðild að, en þessir tveir, annars vegar sá hópur, verkalýðshreyfingin, og hins vegar þingmenn, hafa bundist samtökum um að breyta þessu. Það hefur leitt til þess að nú erum við farin að sjá samninga af þessu tagi og vonandi verður það tekið beint inn í samninginn sjálfan í framtíðinni.