140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

innlán heimila og fjármagnstekjur.

720. mál
[16:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það ætti ekki að þurfa að minna hv. þingmann á, allra síst þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að hér varð eitt stykki efnahagshrun. Samanburður við fjárhæðir í fjármálakerfinu fyrir hrun er ekki endilega mjög skynsamlegur eða raunsær að öllu leyti. Ég held að við verðum að horfast í augu við það efnahagsástand og þær aðstæður í samfélagi okkar sem við höfum verið að berja okkur í gegnum undanfarin þrjú, þrjú og hálft ár. Og án nokkurs vafa er þar að leita skýringanna á því að verulegu leyti hver þróunin hefur verið hvað þetta varðar. (Gripið fram í: …komin fjögur ár síðan.)

Ég fór yfir það að þegar ráðstöfunartekjur dragast saman, atvinna minnkar og fótum er kippt undan mörgum hvað varðar afkomu, er ekkert skrýtið við að það hafi þau áhrif að fólk verði að grípa til sparnaðar síns í einhverjum mæli. Þannig að það á sér augljósar skýringar.

Mér virðast hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins alltaf taka útgangspunkt í því sem hinu eðlilega ástandi sem var fyrir hrunið og gleyma svo hruninu sjálfu og eru alveg standandi hissa á því að veruleikinn líti eitthvað aðeins öðruvísi út í dag en hann gerði þá, eða ætti að gera að þeirra mati miðað við að allt hafi verið svona dásamlegt 2007, 2008. Það er bara ekki þannig. Það er raunheimurinn, raunveruleikinn, sem ræður för. Hans sér stað í ýmsum greinum og þetta er bara ein birtingarmynd þess.

Það er reyndar alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, yfirdráttarlán hafa aukist á nýjan leik. Það er áhyggjuefni. Ég fylgist með þeirri þróun og deili áhyggjum af því. En ég vísaði til þess sem virtist vera að gerast um tíma, að þá fór nokkuð saman að innstæður lækkuðu í bankakerfinu og yfirdrættir voru að greiðast niður. Það var góð þróun og maður hefði gjarnan viljað sjá hana halda áfram þó að auðvitað geti margt fleira spilað þar inn í eins og afskriftir lána og annað í þeim dúr.

Í það heila tekið held ég að ekki sé hægt að segja að hér sé eitthvað sérstakt á ferðinni sem kalli á óhefðbundin viðbrögð. (Forseti hringir.) Þetta er einfaldlega birtingarmynd tiltekins ástands sem við erum að ganga í gegnum og leitar fyrr eða síðar jafnvægis.