140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Með tillögunni er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heitum og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem ég hyggst gera tillögu um til forseta Íslands í samræmi við 15. gr. stjórnarskrárinnar.

Fyrirhugaðar breytingar á Stjórnarráði Íslands fela í sér að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Með þessari breytingu fækkar ráðuneytum úr tíu í átta og er þá lokið þeirri endurskipulagningu á Stjórnarráðinu sem ríkisstjórnin lagði upp með í byrjun kjörtímabilsins í stefnuyfirlýsingu sinni.

Markmið breytinganna nú er ekki fjárhagslegur sparnaður til skamms tíma heldur fyrst og fremst að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa betur á og skýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta og nýta mannauð Stjórnarráðsins betur. Tryggja á öfluga og samhenta nálgun í störfum Stjórnarráðsins varðandi málefni atvinnulífs, auðlindamál og efnahagsmál með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Það er í raun meginmarkmið breytinganna að efla stjórn og samhæfa efnahagsmál, atvinnumál og auðlindamál.

Þannig er lagt til að eðlislík verkefni verði færð saman með það fyrir augum að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Jafnframt er ætlunin að gera ráðuneytunum betur kleift að takast á við aukin og flóknari stjórnsýsluviðfangsefni og tryggja formfestu. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að einn af veikleikum Stjórnarráðsins í tengslum við hrunið hafi verið sá hversu fámenn ráðuneytin sem mest á reyndi í hruninu voru. Þar segir einnig að fjölga þurfi í hópi starfsmanna Stjórnarráðsins sem eru vel menntaðir og þjálfaðir svo þeir geti tekist á við flókin og krefjandi verkefni. Með stærri og öflugri ráðuneytum og auknum samrekstri eðlislíkra verkefna innan Stjórnarráðsins og samrekstri á stoðþjónustu í stærri einingum verður hægt að efla sérfræðiþekkingu ráðuneytanna og gera þeim betur kleift á skilvirkan hátt með góðri yfirsýn að sinna þeim verkefnum sem löggjafinn felur framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma.

Þá geta stærri og öflugri ráðuneyti betur brugðist við þegar takast þarf á við erfiðleika eins og glímt hefur verið við í ríkisrekstri undanfarin ár með því að endurskipuleggja starfsemi sína og takast á við breytingar á lengri tíma. Þetta sést vel, t.d. þegar litið er til sameiningar skattstofu og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Stofnanir hafa getað brugðist við samdrætti með markvissum hætti í krafti stærðarinnar en um leið hefur verið reynt eftir megni að verja grunnþjónustu við borgarana.

Með breytingunum skapast einnig möguleikar á að samhæfa stefnumótun í málaflokkum sem áður voru í mismunandi ráðuneytum og þá skapast ný tækifæri varðandi samlegð verkefna sem ekki voru augljós fyrir fram í stærra ráðuneyti. Breytingar á ráðuneytunum hafa einnig í för með sér aukna möguleika til sameiningar stofnana, samvinnu milli stofnana og breytingar á þjónustu. Þar er mestan fjárhagslegan ávinning að hafa til framtíðar.

Virðulegi forseti. Unnið hefur verið að breytingum á Stjórnarráðinu allt þetta kjörtímabil. Unnar hafa verið sérstakar úttektir, annars vegar á fyrirkomulagi efnahags- og viðskiptamála innan Stjórnarráðs Íslands og að verkefnum ráðuneyta sem fara með atvinnumál og auðlindamál hins vegar. Niðurstöður þessara úttekta og greininga eru á þann veg að skynsamlegt væri að breyta því fyrirkomulagi sem nú ríkir varðandi skiptingu verkefna á þessu sviði innan Stjórnarráðsins.

Árið 2009 voru verkefni á sviði hagstjórnar og fjármálamarkaða utan opinberra fjármála færð í eitt ráðuneyti efnahags og viðskipta.

Í úttekt sem unnin var nú í febrúar kemur fram að veigamikil rök hníga að því að annaðhvort þurfi að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið verulega eða fella verkefni þess undir önnur ráðuneyti. Ef raunverulega á að efla ráðuneytið þyrfti fyrst og fremst að auka getu þess til greiningar, áætlanagerðar og samhæfingar. Slík efling mundi að öllum líkindum krefjast umtalsverðrar fjölgunar starfsmanna. Þá er ljóst að efla þarf hagfræðilega þekkingu í fjármálaráðuneytinu með aukinni áherslu á áætlanagerð til lengri tíma til að tryggja grundvöll og sjálfbærni opinberra fjármála.

Með flutningi verkefna á sviði hagstjórnar frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til fjármálaráðuneytis næst þannig fagleg samlegð án mikillar aukningar á starfsmannafjölda Stjórnarráðsins og þar með fjárhagslegur sparnaður.

Í ljósi þeirrar greiningar sem unnin hefur verið þykir skynsamlegt og faglega rétt að verkefni sem tengjast hagstjórn séu færð frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til fjármálaráðuneytis og að heiti þess verði breytt í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Með því yrði sú hagstjórn sem nú er í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, þar með talin málefni Seðlabanka Íslands, sameinuð því mikilvæga efnahagslega hlutverki sem fjármálaráðuneytið hefur gegnt sem einn af helstu ábyrgðaraðilum hagstjórnar.

Það er rétt að benda á það að alls staðar á Norðurlöndunum utan Danmerkur eru efnahagsmálin í fjármálaráðuneytinu.

Með þessari breytingu verður yfirstjórn flestra svonefndra „macro“-efnahagsmála öll á einum stað í nýju fjármála- og efnahagsráðuneyti sem gegna mun heildstæðu hlutverki á sviði efnahagsmála. Þannig verða öll meginverkefni á sviði hagstjórnar, ríkisfjármála, peningastefnu- og gjaldeyrismála á einum stað innan Stjórnarráðsins.

Til viðbótar við þetta er í úttekt á efnahags- og viðskiptamálum innan Stjórnarráðs Íslands lagt til að fjármálamarkaðurinn verði einnig færður til fjármálaráðuneytisins, m.a. vegna mikilvægis fjármálastöðugleika í tengslum við hagstjórn, en önnur viðskiptamál og umgjörð atvinnulífs flutt til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Nánari greining á því hvar skipa beri þessum mikilvæga málaflokki leiðir hins vegar í ljós rök fyrir því að ekki þurfi að hafa fjármálamarkaðinn í nýju fjármála- og efnahagsráðuneyti heldur fari vel á því að hann sé með öðrum atvinnugreinum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ásamt Fjármálaeftirlitinu.

Í fyrsta lagi er vísað til tillagna í nýlegri skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Þar er ekki mælt með því að eitt ráðuneyti verði beinn framkvæmdaraðili fjármálastöðugleikastefnu heldur verður komið á fót sérstöku fjármálastöðugleikaráði ráðuneyta og stofnana sem beri ábyrgð á fjármálastöðugleika og þar með stærsta hagstjórnarþættinum í tengslum við fjármálamarkaðinn. Þar með opnast möguleiki til að hafa fjármálamarkaðinn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í öðru lagi er viðkvæmt að fjármálamarkaðurinn heyri undir sama ráðuneyti og fer með eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Í þriðja lagi er fjármálaráðuneytið fyrir hönd ríkissjóðs stór aðili á fjármálamarkaði og í senn stór viðskiptavinur og samkeppnisaðili fjármálastofnana.

Loks hafa flestir sem skoðað hafa fjármálamarkaðinn eftir hrun, og nú síðast í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra, ekki tekið undir þær hugmyndir Kaarlos Jännäris að sameina skuli Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands en taka undir með honum um mikilvægi virks upplýsingaflæðis á milli stofnana.

Rétt er að benda á það að bæði Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið eru lögum samkvæmt mjög sjálfstæðar stofnanir og heyra ekki undir ráðuneytið með sama hætti og hefðbundnar ríkisstofnanir og því ekki brýnt að stofnanirnar séu undir sama ráðuneyti. Mikilvægara er að tekið sé á skýrum samskiptum þeirra á millum í samræmdri löggjöf.

Í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og í seðlabankalögum eru nú þegar gagnkvæm ákvæði um upplýsingaskipti milli stofnana. Þá kveður nýgerður samstarfssamningur milli stofnana á um samstarf um eftirlit með fjármálakerfinu sem heild með þjóðhagsvarúð að leiðarljósi.

Í tillögum sem fram eru settar í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins er lagt til að sett verði sérstök fjármálastöðugleikalög sem meðal annars kveða á um samstarf stjórnvalda, hlutaðeigandi ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka og Samkeppniseftirlitsins. Þetta samstarf yrði síðan formgert í fjármálastöðugleikaráði eins og áður er nefnt og mun tryggja heildarsýn burt séð frá því undir hvaða ráðuneyti stofnanirnar tvær heyra.

Virðulegi forseti. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti mun ná til allra greina hins almenna atvinnulífs en í greiningu sem unnin var við undirbúning fyrirhugaðra breytinga kom fram að ná mætti fram mikilli samlegð með stofnun ráðuneytis þvert á atvinnugreinar, t.d. varðandi samkeppnissjóði og stoðkerfi atvinnulífsins.

Með sameiningu iðnaðarráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og tilflutningi verkefna frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti verður til öflugt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar þar sem aðkoma ríkisins að stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar og nýsköpun verður samræmd á einum stað til hagsbóta fyrir samfélagið. Þannig verður tryggt jafnræði milli atvinnugreina, og stjórnsýsla varðandi þær skilvirk og einföld. Sameiningin leiðir til þess að á einum stað í stjórnkerfinu verður til heildarsýn yfir atvinnulífið og mun það auðvelda stjórnvöldum að bregðast við breytingum og móta atvinnuhætti landsmanna til framtíðar.

Með því að stofna nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti á grunni umhverfisráðuneytisins er lögð áhersla á aukið hlutverk þess varðandi sjálfbæra nýtingu auðlinda í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Ráðuneytið mun meðal annars fá það hlutverk að setja viðmið um sjálfbærni sem ætlað er að tryggja ábyrga umgengni við náttúruna og allar auðlindir hennar. Ísland byggir afkomu sína meira á auðlindum náttúrunnar en margar þjóðir og auðlindirnar mynda grunn margra öflugustu atvinnugreina landsins. Það er því grundvallarþáttur í velferð samfélagsins að auðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt svo unnt sé að tryggja varanlegan afrakstur af þeim og eðlilegan arð í sameiginlega sjóði. Nýtt hlutverk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins mun að meginstefnu til vera tvíþætt:

Í fyrsta lagi mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið hlutast til um mótun og eftir atvikum lögfestingu meginreglna umhverfisréttar og skilgreiningu þeirra viðmiða sem gilda eiga um sjálfbæra nýtingu. Í öðru lagi verður samstarf umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra formgert með sameiginlegum samstarfsvettvangi þar sem markmiðið um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins verður haft að leiðarljósi. Stjórnskipulega heyrir Hafrannsóknastofnun undir atvinnuvegaráðuneytið en stjórnskipulagi stofnana verður breytt þannig að bæði ráðuneytin hafi þar aðkomu á sameiginlegum samstarfsvettvangi sem ég nefndi hér áðan.

Mikið samráð var haft við hagsmunaaðila á árinu 2011 um mótun fyrirhugaðra breytinga í tengslum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Haldnir voru tveir stórir fundir með öllum hagsmunaaðilum, síðan 15 fundir með einstökum atvinnugreinafélögum, auk funda með nokkrum félagasamtökum á sviði umhverfisverndar. Niðurstaða þessara funda var öll á þann veg að gera mætti betur og auka skilvirkni og einfalda stjórnsýslu. Þá töldu fulltrúar margra atvinnugreinafélaga að auka ætti jafnræði atvinnugreina og almennt auka áherslur á stuðning ríkisins við rannsóknir og nýskipan í öllum atvinnugreinum. Fulltrúar þeirra atvinnugreinafélaga sem fundað var með voru þó ekki allir sammála um fjölda og skipulag ráðuneyta. Til viðbótar við þessa greiningarvinnu og samráð sem átt hefur sér stað hefur sérstök ráðherranefnd um stjórnkerfisumbætur verið að störfum frá því í byrjun árs, sem í áttu sæti fimm ráðherrar. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru afrakstur vinnu þeirrar nefndar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að við lok þessarar umræðu verði tillögunni vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og síðari umr.