140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og er það í samræmi við lög sem samþykkt voru haustið 2011, lög nr. 115, um að breytingar á Stjórnarráðinu skuli leggja fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu. Það var sett inn í það frumvarp sem þá var lagt fram, og var breytt eftir mikla umræðu á Alþingi, að forsætisráðherra gæti ekki farið til Bessastaða og óskað eftir breytingum á Stjórnarráðinu sisvona án þess að spyrja kóng eða prest. Það þyrfti að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi og það er hún sem við ræðum núna. Mér sýnist ekki hafa verið vanþörf á þeirri breytingu. Og mér sýnist að gera þurfi sitthvað fleira vegna þess að sú þingsályktunartillaga sem við fáum hingað er svo mögur og það er svo erfitt að átta sig á um hvað hún eiginlega snýst að ég hugsa að núna séu menn um allt þjóðfélagið, um allt stjórnkerfið, að klóra sér í hausnum yfir því hvar þeir muni starfa og undir hvaða ráðuneyti í haust eða þegar kemur að jólum.

Ég er í sjálfu sér ekkert óánægður með það að ný ríkisstjórn sem tekur við störfum geti mótað Stjórnarráðið eftir sínu höfði að einhverju leyti en mér finnst að liggja þurfi fyrir samþykki Alþingis og miklu meira en það, að liggja þurfi fyrir samþykki Alþingis þar sem fyrir liggur greining á viðkomandi breytingum, eitthvað meira um það hvernig þær virka og hvaða afleiðingar þær hafa, kostnað, kostnaðarmat og annað slíkt, þannig að það liggi fyrir á Alþingi þegar við ræðum til dæmis svona þingsályktunartillögu hvað eigi að gera með einstakar stofnanir, það sé skýrsla um að þessi breyting þýði að Seðlabankinn fari undir fjármálaráðuneytið o.s.frv. Þetta finnst mér vanta og það sem maður les í þessari tillögu er afskaplega magurt og segir mér voðalega lítið.

Þessi tillaga til þingsályktunar er í anda þess að þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn getur fengið ágreining velur hún hann frekar en samráð og samþykki. Meira að segja innan stjórnarflokkanna virðist vera mikið uppnám, það hefur komið fram í ræðum að alla vega tveir hv. þingmenn og fyrrverandi ráðherrar, Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason, eru mjög ósáttir við þær breytingar sem hér er verið að gera. Þá spyr maður sig: Hvar er eiginlega stjórnarmeirihlutinn um þetta mál? Getur verið að Hreyfingin sé búin að stofna nýja ríkisstjórn til að koma stjórnlagaráðsfrumvarpinu í gegn og þess vegna sé verið að keyra með svona ósköpum á það mál?

Eins og ég sagði getur verið ágætt að fá svona tillögur og það getur verið ágætt í byrjun kjörtímabils þegar ný ríkisstjórn tekur til starfa að hún ákveði að hafa ráðuneytin svona eða svona, þetta séu ráðherrarnir og þetta stjórnarsáttmálinn og svona ætli hún að gera þetta og það verði þá samþykkt á Alþingi með nákvæmri útlistun á því hvernig það lítur út og þeim kostnaði sem því fylgir þannig að fólk viti hvað bíður þess, þannig að Hafrannsóknastofnun viti hvar hún verður ekki bara fyrsta kastið, hvaða kast sem er átt við með því, heldur að hún viti að hún heyri undir þetta ráðuneyti og þar verði hún til enda kjörtímabils, hún veit það ekki í dag. Þetta er hreinlega illa unnin tillaga til þingsályktunar.

Það sem ég sæi fyrir mér er að menn reyndu að leita samráðs, a.m.k. innan þeirra þingflokka sem standa að ríkisstjórninni, og reyndu að sameina skoðanir, jafnvel að taka stjórnarandstöðuna með inn í dæmið því að það er ekki endilega spurning um stjórnmálastefnu hvernig Stjórnarráðið er uppbyggt, þetta er eitthvað sem varðar allt landið og á að vera til einhverrar framtíðar, ekki bara að því sé alltaf skipt við hver ríkisstjórnarskipti.

Þegar maður fer í gegnum þessa tillögu og sér hvað verið er að tala um finnst mér þar, eins og ég gat um, mjög fátt sem hægt er að taka á. Það er engin kostnaðaráætlun, það er engin skýrsla og það liggur ekki fyrir hvað gerist. Af hverju er hætt við efnahags- og viðskiptaráðuneytið sem er búið að starfa í tvö ár? Þetta er gert innan sömu ríkisstjórnar. Voru það mistök eða hvað olli því að menn sáu að þetta gengur ekki og breyta núna um stefnu í því og telja menn að gott sé að hafa öll málefni varðandi efnahagsmál, gjaldeyrismál, fjármál og skattamál undir einum manni. Mér finnst það fulllangt í seilst.

Eins og ég segi finnst mér vanta hér mikið kjöt á beinin til að vita um hvað ég er að tala, það vantar kostnaðaráætlun og það vantar allt nema það að þetta á að fara í gang í september 2012. 1. september verður þetta komið í framkvæmd og það liggur fyrir að á Íslandi eru yfirleitt sumarleyfi í júlí og ágúst þannig að menn gera kannski ekki mikið. Þetta verður mikil breyting og mjög hröð og á meðan bíður margt annað. Eins og við höfum talað um erum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem leggst líka heilmikið á ráðuneytin og á meðan erum við með óleyst vandamál sem ekki er tekið á, eins og vandamál heimilanna.

Hér hefur verið rætt um að vel hafi tekist til með breytingar velferðarráðuneytis sem var sameinað úr heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu, þær hafi tekist vel. Það á eftir að koma í ljós hvort svoleiðis gífurlegur málafjöldi á hendi eins manns sé góð stjórnsýsla og hvort sá eini maður ráði við allar þær breytingar sem þarf að gera og allar þær ákvarðanir sem þarf að taka í svo stóru ráðuneyti. Ég er ekki viss um það, ég er ekki viss um að tilhneiging til æ stærri ráðuneyta sé af hinu góða. Ég vil benda á að í þessum lögum um Stjórnarráð Íslands er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að hér verði bara eitt ráðuneyti, ráðuneyti Íslands. Það er ekkert sem hindrar það í sjálfu sér. Upphaflegu hugmyndirnar gengu út á það að ráðuneytin mættu ekki vera fleiri en tíu en svo hættu menn við það vegna þess að það stangast á við stjórnarskrána. Ég óttast að þær tillögur sem hér er verið að gera séu illa unnar og þær muni valda glundroða í stjórnsýslunni sem ekki er á bætandi því að við þurfum núna stöðugleika og eitthvað sem borgarinn getur haldið sér í.