140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu. Hann gerði nokkuð sem við höfum ekki haft nógu mikinn tíma til að gera við þessa umræðu, þ.e. að velta því upp hvað við ættum að gera til að breyta Stjórnarráðinu. Það er svo sem skiljanlegt því að mikill tími okkar fer í að koma í veg fyrir stórslys og reyna að átta okkur á því hvað er á ferðinni í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Hv. þingmaður nefndi nokkuð sem ég er sammála hv. þingmanni um, að það eigi að ráða embættismenn inn í Stjórnarráðið þannig að það sé möguleiki að færa embættismenn á milli sem auðveldast. Ég tel líka að við eigum að gera þá breytingu að setja hámarkstíma á það hvað hver embættismaður getur verið lengi í ákveðnu starfi. Ég held að það sé hættulegt að hafa sama embættismanninn — eða í rauninni sama hver það er en í þessu tilfelli erum við að tala um embættismenn — í sömu stöðunni jafnvel áratugum saman. Ég held að það sé hvorki gott fyrir viðkomandi einstakling né það starf sem hann sinnir. Ég vildi því, virðulegi forseti, velta því aðeins upp með hv. þingmanni, af því að hann er hér að ræða um breytingar, hvað honum fyndist um að við settum hámarkstíma á það hvað viðkomandi embættismaður gæti gegnt sömu stöðunni lengi. Þá er innifalið í þeirri hugmynd að það yrði regluleg færsla þannig að fólk tæki við nýjum verkefnum. Ég held að það gæti þýtt mikla endurnýjun og aukna hamingju fyrir embættismenn en sömuleiðis held ég að þjónustan yrði betri. Getur hv. þingmaður tekið undir það?