140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um vanda heimilanna og vanda fyrirtækja. Allar þessar upplýsingar liggja fyrir á hverri einustu sekúndu úti í bæ, hjá lánasjóðum, Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum, skattstjóra og bara úti um allt. Spurningin er hvort ekki eigi að safna þessum upplýsingum saman. 3. apríl sl. birti Seðlabankinn könnun sem Þorvarður Tjörvi Ólafsson og Karen Á. Vignisdóttir gerðu, mjög góða könnun en hún byggir á eldgömlum upplýsingum, upplýsingum frá því fyrir hrun. Þetta er það nýjasta sem við höfum.

Ég spyr hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, hvort hann hyggist ekki beita sér fyrir því að nefndin flytji frumvarp um að kanna stöðu heimilanna núna, einmitt núna. Það hafa orðið miklar breytingar frá því að þau gögn sem Seðlabankinn notar urðu til. Fjöldi fólks hefur farið úr landi, margir orðið atvinnulausir og mjög margir orðið leigjendur. Það merkilega er, frú forseti, að við vitum ekkert um stöðu leigjenda, bara ekki neitt. Þar er samt um fjórðung heimila í landinu að ræða. Við setjum tugi milljarða og aftur tugi milljarða til aðstoðar þeim sem eru í vanda út af skuldum — og við vitum ekkert hvernig það virkar. Mér finnst mjög brýnt að Alþingi afli þessara upplýsinga sem eru úti um allt. Fyrir Alþingi hafa legið tvö frumvörp, annað stjórnarfrumvarp og hitt frá mér, um að kanna stöðu heimilanna úti í bæ. Ég vil að það verði gert. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)