140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði að inna hann eftir einu. Í þessum umræðum og sex þingmálum hæstv. forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu hefur ítrekað komið fram mikil gagnrýni á að allar þessar breytingar hafa miðað að því eða réttara sagt hafa gert það að verkum að ráðuneytin stækka gríðarlega mikið og yfirsýn ráðherranna með þeim dregst saman.

Hæstv. fyrrverandi ráðherra, Ragna Árnadóttir — sem var ráðherra í þessari ríkisstjórn, var einnig ráðuneytisstjóri og er í dag aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, um hana ríkti mikil sátt í ráðherrastóli á sínum tíma — sagði í viðtali eftir að hún hætti sem ráðherra að menn skyldu átta sig á því að með því að stækka ráðuneytin gríðarlega mikið værum við að auka völd embættismanna en draga úr völdum kjörinna fulltrúa. Menn yrðu síðan að svara því hvort það væri jákvætt eða neikvætt.

Þegar maður les til að mynda rannsóknarskýrslu Alþingis og annað er einmitt talað um hið gagnstæða og straumarnir og kröfurnar í samfélaginu eru um hið gagnstæða, þ.e. að draga úr völdum embættismannakerfisins og embættismannanna og að kjörnir fulltrúar, sem sannarlega geta svarað til ábyrgðar á fjögurra ára fresti í kosningum, hafi völdin því að það eru jú þeir sem bera ábyrgðina.

Hvað finnst hv. þingmanni um þær breytingar sem nú er verið að ræða og þær breytingar sem orðið hafa? Er hv. þingmaður sammála mati Rögnu Árnadóttur á þessu máli eða telur hv. þingmaður að það frumvarp sem við erum að ræða sé í fullu samræmi við þær kröfur og strauma sem eru í samfélaginu í dag?