140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kemst að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður í þessu efni og þá sérstaklega í ljósi þess að Landsvirkjun er með neðri hluta Þjórsár og þá virkjunarkosti næst í röðinni og hefur sagt að þeir muni ekki geta stuðlað að áframhaldandi atvinnuuppbyggingu ef þeir kostir verða ekki virkjaðir. Á sama tíma er Íslandsstofa að segja okkur að aldrei hafi annar eins áhugi verið hjá fyrirtækjum erlendis, fyrirtækjum í fjölbreyttum iðnaði, að koma til landsins og fjárfesta hér.

Mig langar að spyrja þingmanninn annarrar spurningar, virðulegi forseti. Formaður Framsóknarflokksins nefndi það um daginn í umræðu um olíuauðlindina að þetta gæti haft veruleg áhrif á lánshæfismat landsins. Hvernig mæti hv. þingmaður það ef við værum með framkvæmdaáætlun eins og Landsvirkjun reiknar með þar sem virkjunarkostir í nýtingarflokki voru eingöngu lagðir til grundvallar — hvaða áhrif hefði það á lánshæfismat landsins (Forseti hringir.) ef við settum fram framkvæmdaáætlun til ársins 2025 sem mundi skila, (Forseti hringir.) samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslum, allt að 200 milljörðum á ári í íslenskt þjóðarbú?