140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns sem lýtur almennt að aðferðafræðinni við átektir þingsins og umfjöllun þingsins um rammaáætlun.

Það kom réttilega fram í máli þingmannsins að biðflokkurinn á að vera fyrir þá kosti þar sem ekki liggja nægilegar upplýsingar fyrir eða þar sem skortir rannsóknir, þekkingu eða gögn af einhverju tagi. Allir slíkir kostir höfnuðu í biðflokki.

Nú langar mig að spyrja þingmanninn: Þegar lögfullur vafi rís um málið og fram koma nýjar upplýsingar varðandi einstaka virkjunar- eða friðunarkosti, nýjar upplýsingar koma fram um atriði sem ekki hafa verið tekin til skoðunar þegar verkefnaáætlunin setti fram plagg sitt, hvernig lítur þingmaðurinn þá á að eigi að meðhöndla slíkt? Ef fram koma nýjar upplýsingar sem lúta að einhverju sem verkefnisstjórnin hefur ekki tekið til álita hvernig mundi þá þingmaðurinn, sem ég veit að er lögfræðilega menntaður, vilja taka á slíkum vafamálum í þinginu?