140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst segja varðandi sæstrenginn og þá umræðu, að ég hef látið í ljósi opinberlega skoðanir mínar í þeim efnum. Ég tel það alls ekki vera forgangsmál, einfaldlega af þeirri ástæðu að það er meiri eftirspurn í dag eftir raforku hér innan lands en við getum framleitt, það er bara svo einfalt. Ég tel að við höfum lítið að segja úti á þessum stóra markaði, tel miklu fremur að arðinum sem við getum haft af orkuauðlindunum sé betur ráðstafað af heimilum og fyrirtækjum innan lands en að láta þau greiða og safna í digran sjóð undir sjö manna stjórn í ríkisfyrirtæki sem sjái um að deila þessu út. Ég vildi láta það koma fram.

Varðandi vilja okkar til að fækka verkefnum í biðflokki þá snýst málið ekki endilega um það, heldur krefjumst við betri rökstuðnings fyrir því sem þar er verið að gera. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram athugasemd frá Skipulagsstofnun en hún telur að vegna þess hve stór biðflokkurinn stefnir í að verða verði áætlunin mjög ómarkviss. Skipulagsstofnun ríkisins gerir athugasemdir við þennan stóra biðflokk. Ég vil líka nefna að mjög vafasamar röksemdir eru færðar fyrir því hvers vegna tilteknar framkvæmdir séu færðar í biðflokk. Til dæmis er ein röksemd hér:

„Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta.“

Það er búið að marka friðlandið. Hversu langt á þá að fara út fyrir það með eitthvert áhrifasvæði? Dugir að það sé einhver hæð sem skyggir á o.s.frv.? Þetta er allt mjög ómarkvisst og við krefjumst fyllri upplýsinga og rökstuðnings fyrir því hvers vegna til dæmis framkvæmd sem þessi er sett í biðflokk. Þetta eru ekki rök sem halda í mínum huga þegar við erum að ræða svo mikilvæg mál sem (Forseti hringir.) orkuframleiðsla í landinu er.