140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

aðdragandi Icesave-samninganna.

[13:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Á árinu 2009 var undirritaður samningur í deilu Íslands við Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Það þarf ekki að fara í löngu máli yfir það hversu ábótavant kynningu á þessum samningum var gagnvart þinginu og almenningi, en með hvaða hætti kynnti hæstv. forsætisráðherra málið í ríkisstjórn? Fór hæstv. forsætisráðherra yfir aðdragandann þegar stefndi í samninga og á hvaða nótum væri verið að ræða málið? Fór hæstv. ráðherra yfir samningsdrögin þegar þau lágu fyrir í ríkisstjórninni og fór hæstv. ráðherra yfir mat á hugsanlegum efnahagslegum afleiðingum þess að undirrita samningana áður en þeir voru undirritaðir í ríkisstjórn?