140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

654. mál
[16:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að taka undir með hæstv. ráðherra hvað varðar þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira, þær breytingar sem lagðar eru til um að hér komi nýr kafli sem heitir Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður.

Verkefnið verður áþekkt, hlutverk bókmenntasjóðs, en hnykkt er á kynningu íslenskra bókmennta innan lands sem erlendis. Er það gert, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, í beinu framhaldi af þátttöku okkar sem heiðurslands á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011. Þá má láta þess getið, eins og fram kemur í frumvarpinu á bls. 3, að um 200 íslenskar bækur og bækur um Ísland komu út á þýska málsvæðinu á árinu 2011 í samstarfi við hátt í 100 bókaforlög vegna þátttöku okkar í þessari bókamessu. Sjaldan eða aldrei hefur íslensk menning, hvort heldur er bækur, myndlist, list, sýningar, dans eða hvaða menningartengdir þættir sem við getum nefnt, fengið jafnvíðtæka kynningu eins og einmitt þarna. Því ber að fagna að fram komi hugmynd að miðstöð, eins og hér stendur, íslenskra bóka og bókmenntasjóðs til að hnykkja á kynningunni.

Í máli hæstvirts ráðherra kom einnig fram, og það er kannski það sem mun verða verkefni fjárlaganefndar, að á fjárlögum 2012 voru veittar 25 millj. kr. í tímabundna fjárheimild á yfirstandandi ári sem ætlað var að fylgja eftir kynningarverkefnum undir yfirskriftinni Sögueyjan Ísland. Það er kannski sú fjárhæð sem óska þarf eftir að verði ekki tímabundin heldur varanleg. Þessar 112 millj. kr. sem eru til á þetta verkefni, og frumvarpið kveður á um, þurfa að vera áfram inni og verður þá skoðað hvort það er framreiknað með einhverju til eða frá. En til að þetta verði að veruleika þurfa þessar 25 millj. kr. væntanlega að vera þar inni því að eins og fram kemur í frumvarpinu þá kallar þessi breyting á einn til tvo starfsmenn til viðbótar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð í 1. umr. um þetta frumvarp, virðulegi forseti. Það mun fara til allsherjar- og menntamálanefndar og fá þar sína umfjöllun. Það verður fróðlegt að vita hvort næst að afgreiða þetta mál á yfirstandandi þingi.