140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[15:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umræða fer fram um skuldavanda heimilanna en vonandi fer nú að síga á seinni hlutann á þeim umræðum hér, þ.e. stöðu þess máls og þau úrræði sem ýmist er verið að boða eða ekki að boða til lausnar á vandanum.

Nokkuð er síðan við höfum rætt þetta í þingsal og frá því að það var gert síðast hefur Seðlabanki Íslands gefið frá sér skýrslu um málið og um páskana bárust þær fréttir úr herbúðum ríkisstjórnarflokkanna að nú væri verið að setja saman einhverjar tillögur til að taka á skuldavanda heimilanna. Þess vegna taldi ég þörf á og óskaði eftir þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í henni í dag.

Mig langar til að fá fram einhverjar upplýsingar um það á hvaða leið þetta málefni er. Þá er mjög mikilvægt að átta sig á því í hverju vandinn er fólginn, í hverju telur ríkisstjórnin vandann vera fólginn til að það sé alveg öruggt að við séum öll að tala um sama hlutinn. Er aðeins verið að tala um húsnæðislán fjölskyldna og heimila í landinu eða er verið að tala einnig um leigjendur? Að öllum öðrum þingmönnum ólöstuðum hefur enginn verið ötulli við að benda á vanda þeirra en Pétur Blöndal. Er verið að taka á báðum þessum hópum, þ.e. húseigendum og leigjendum, eða erum við einfaldlega að skoða húsnæðislánin, eins og svo oft hefur komið fram hér í umræðum um þessi mál, þ.e. að eingöngu sé verið að skoða vanda vegna veðskulda á húsnæði?

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geri ráð fyrir því að þessar tillögur verði lagðar fram á þessu þingi, ef einhverjar eru, og hvenær þær muni þá liggja fyrir vegna þess að nú þegar hefur sá frestur runnið út sem við höfum til að leggja fram mál sem meiningin er að afgreiða á þessu þingi.

Síðan langar mig að spyrja um lánsveðin, af því að komið var sérstaklega inn á það í umræðum í fjölmiðlum af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar þetta mál var til umræðu síðast, þ.e. um páskana. Þá var tekið fram að í pípunum væru einhverjar lausnir varðandi lánsveðin. Mér skildist að lífeyrissjóðirnir mundu koma þar eitthvað að, sem kemur mér talsvert á óvart vegna þess að í öllum þeim umræðum sem ég hef átt þátt í þar sem lífeyrissjóðirnir koma við sögu hefur það einmitt ekki verið afstaða lífeyrissjóðanna að koma að lausn þessara mála þar sem þessi lán eru flestöll í skilum og enginn vilji er að því er mér skilst, eða hefur ekki verið, til þess að lífeyrissjóðirnir tækju á sig eitthvað af þessu.

Þá kemur að næstu spurningu, þ.e. hvaða fjármuni ríkisstjórnin er tilbúin til að veita í það að leita lausna og leggja fram tillögur um þessi málefni og hvernig eigi að fjármagna úrræðin. Síðan er mikilvægt þegar við horfum á þetta að ræða aðeins líka um Íbúðalánasjóð. Við í þinginu höfum rætt áður um þá lánþega sem eru hjá Íbúðalánasjóði. Þeim buðust ákveðin úrræði en afskaplega fáir uppfylltu skilyrði sem fóru þar í gegn. Það er því spurning hvort ráðherrann er ánægður með þau úrræði og þá afgreiðslu sem Íbúðalánasjóður hefur haft gagnvart þeim lánþegum sem hafa verið í skuldavanda og sótt um úrræði eða hvort ráðherrann telur að þar þurfi að bæta í af því að þetta er hluti af rekstri ríkisins.

Síðan langar mig að spyrja ráðherrann að öðru. Legið hefur frammi í þinginu frumvarp þar sem gert er ráð fyrir flýtimeðferð þeirra dómsmála sem snúa að því að leysa úr málefnum tengdum skuldavanda heimilanna. Það mál hefur verið fast í nefnd og virðist ekkert á leiðinni út. Mig langar að leita eftir afstöðu ráðherrans til þess hvort við ættum nú að taka höndum saman um að taka það á dagskrá og samþykkja það vegna þess að nokkur mikilvæg mál liggja hjá dómstólunum, m.a. á að láta reyna, eftir því sem mér skilst, á gildi verðtryggðra lána. Það væri áhugavert ef ráðherrann hefði einhverja skoðun á því máli og væri gott að hún kæmi fram í umræðunni.

Hér eru komnar allnokkrar spurningar og flestar þeirra sendi ég ráðherranum, en fleiri bætast stöðugt við. Það er einfaldlega vegna þess að fólk, flestallt, þekkir einhvern eða á sjálft í vandræðum vegna skuldavanda, greiðsluvanda eða tekjuvanda og hefur hópast í hrönnum og sent mér fyrirspurnir, hringt og beðið mig um að bæta hérna í fyrirspurnirnar. Ég verð að sýna því skilning ef ráðherrann kemst ekki yfir þetta allt saman. En það er ein spurning enn: Hvernig gengur að fylgja eftir endurútreikningum erlendra lána, þ.e. gengisbundnu lánanna, eftir dóminn? Fólk hefur verið að kalla mikið eftir því að það fái einhverja afgreiðslu í gegnum sína banka en gengur hægt.