140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um neytendalán. Ég held að þetta sé hið besta mál, en ég vil gera nokkrar athugasemdir við það.

Fyrst ætla ég að tala aðeins um einn þátt sem ég fagna sérstaklega að sé kominn hér inn. Ég hef verið, eins og hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar vita og gera sér grein fyrir, talsmaður frelsis á fjármálamarkaði og frelsis yfirleitt, en ég fagna því samt að hér sé verið að herða rammann um smálán. Það er nákvæmlega eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði áðan að freistingarnar fyrir ungt fólk eru margar og smálánin eru stíluð inn á ungt fólk. Þetta eru gríðarlega dýr lán og eins og hæstv. ráðherra benti á í andsvari getur árlegur kostnaður getur numið allt að 600%. Það sér hver heilvita maður að það er ekki farsælt að taka þannig lán. Þrátt fyrir að ekki sé kannski um mjög stórar upphæðir að ræða, alla vega ekki í augum okkar sem erum með millitekjur, eru þetta háar upphæðir fyrir ungt fólk.

Ég held að það að fara fram á að lánafyrirtækin geri einhvers konar lánshæfismat styrki það mjög að ekki verði einhver mistök eða að lánin glepji ekki á sama hátt þá sem eru viðkvæmir fyrir svona gylliboðum, getum við sagt. Auðvitað er sjálfsagt að einhvers konar úrræði séu fyrir hendi þannig að fólk geti útvegað sér lán ef það þarf þess nauðsynlega og það getur vel verið að réttlætanlegt sé að borga mikið fyrir það í einhverjum tilfellum, en þetta á alls ekki að vera þannig að smálán séu stór grein fjármála á Íslandi.

Þetta er náttúrlega hluti af neytendavernd og ég fagna því að hér skuli vera farið vel í marga liði sem lúta að því að bæta neytendavernd á Íslandi.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að neytendavernd á fjármálamarkaði hefði bara verið ágæt hingað til. (Efnahrh.: Nei.) Afsakið, hér grípur hæstv. ráðherra fram í fyrir mér, ég hef þá eitthvað misskilið þetta, í dag ætlum við að misskilja hvor annan, þannig að ég tek þetta til baka.

Þá kem ég að því sem ég geri mestar athugasemdir við en það er stofnanaumgjörðin um neytendaverndina. Ég hef verið þeirrar skoðunar í mjög mörg ár, alveg frá því í kringum 2000, að neytendavernd á fjármálamarkaði sé ábótavant. Þegar ég var við rannsóknir í háskólanum gerði ég meðal annars rannsóknir á sparnaðarlíftryggingum og fór m.a. einu sinni í Fjármálaeftirlitið og benti þeim á hvað erlend tryggingasölufyrirtæki væru að taka mikið í falinn kostnað. Ég mætti svo sem skilningi en þeir sögðu að neytendavernd væri ekki alveg á þeirra sviði.

Neytendavernd á fjármálamarkaði hefur verið ábótavant. Það hefur algjörlega vantað þann stofnanalega ramma sem þarf utan um hana. Við höfum orðið mjög illa vör við það núna í eftirhreytum hrunsins að mörg álitamál hafa komið upp. Við sjáum jafnframt að betur hefði verið að hér hefði verið virk neytendavernd á fjármálamarkaði, til dæmis þegar verið var að veita gengislánin, vegna þess að sá sem hefði haft góða innsýn í reglur sem giltu um slík lán hefði átt að gera sér grein fyrir því að þau væru á gráu svæði eða jafnvel ólögleg. Það er náttúrlega algjörlega ótrúlegt að þetta hafi farið fram hjá mönnum og lekið einhvern veginn í gegn og öll þessi lán hafi verið veitt.

Ég er þeirrar skoðunar að eftirlit með neytendavernd á fjármálamarkaði eigi heima á borði Fjármálaeftirlitsins. Ég er reyndar á því að bankaeftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins eigi að vera í Seðlabankanum til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Það fjármálaeftirlit sem eftir stendur á fyrst og fremst að snúast um neytendavernd, samkeppnismál og eftirlit með vátryggingum, vátryggingum sem snúa að heimilum og einstaklingum en líka fyrirtækjum af því að það er óeðlilegt að skilja þær að.

Í frumvarpinu kemur fram að sú aukna neytendavernd sem boðuð er í því kalli á einn starfsmann. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétt mat hjá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég sé fyrir mér að mun öflugra eftirlit þurfi en það sem einn maður getur sinnt, auk þess sem ég geri athugasemdir við það að neytendavernd á jafnflóknum markaði og fjármálamarkaði, neytendavernd sem lýtur að því að hafa eftirlit með flóknum fjármálagjörningum og flóknum fjármálavörum, eigi að vera á þessum stað, að sérþekkingin sem Neytendastofa byggir upp eigi að vera akkúrat á þessu sviði. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður sagt, að þetta eigi mun fremur heima í breyttu Fjármálaeftirliti.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp, en ef ég dreg þetta saman þá fagna ég því að neytendavernd skuli vera aukin. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd á auðvitað eftir að fara nákvæmlega yfir frumvarpið og ekki ólíklegt að upp komi einhverjir agnúar í þeirri yfirferð, og ég mun fjalla betur um málið í 2. umr.