140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti sagði réttilega hér áðan að það hefði verið skynsamlegt á sínum tíma þegar við sáum hversu mjög íbúðalánamarkaðurinn var að þenjast út og verðlag fór þar hækkandi að reyna með einhverjum hætti að takmarka aðgengi að lánsfé. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um þetta. Það var sjálfsagt hægara um að tala en í að komast. Við munum að þá voru starfandi á markaðnum þrír umsvifamiklir bankar sem höfðu á sínum tíma forgöngu um að hækka mjög lánshlutföllin og bjuggu þannig til mikla samkeppni við Íbúðalánasjóð. Þess vegna gerðist það á árinu 2008, og raunar var það svo seint sem á miðju ári 2008, að samþykkt var í þáverandi ríkisstjórn að tillögu hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, tillaga um að hækka heimildarmörkin fyrir Íbúðalánasjóð til að veita lántakendum sínum lán. Ég tel að það hafi verið mjög óhyggilegt þegar við skoðum þetta í þessu samhengi.

Ég vil líka í þessu sambandi nefna annað. Við höfum um árabil stuðst við svokallað vaxtabótakerfi. Á sínum tíma talaði ég fyrir því og skrifaði um það miklar og lærðar greinar að það væri eðlilegt að lækka vaxtabætur við þær aðstæður sem voru uppi á fyrsta áratug þessarar aldar. Þá tókst mér það sem ég hefði aldrei gert mér í hugarlund, að sameina Samfylkinguna, Framsóknarflokkinn á þeim tíma og Alþýðusamband Íslands í andstöðu við þessa hugmynd. Þá töldu menn að þetta væri svo mikilvægt til að auðvelda ungu fólki að kaupa sér húsnæði. Það var auðvitað hið þveröfuga sem gerðist, einfaldlega það að þetta varð einn þátturinn í því að kynda undir húsnæðisverðinu og hækka með því þröskuldinn þannig að við vorum komin í einhvers konar vítahring. Það var bæði aukið lánsfjárframboð, sem að öðru jöfnu hefði átt að auðvelda fólki (Forseti hringir.) að kaupa sér húsnæði, og það hækkaði verðið. Hið sama gerðu vaxtabæturnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að það beri að nota vaxtabæturnar í sveiflujafnandi (Forseti hringir.) tilgangi.