140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

lengd þingfundar.

[15:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við eina ferðina enn að greiða atkvæði um hvort þingfundur megi standa lengur en þingsköp segja til um. Nú hef ég svo sem skilning á því að hæstv. ríkisstjórn telji sig þurfa tíma til að koma í gegn öllum þeim fjölda mála sem hefur verið lagður fram á seinasta degi þingsins. En þó verð ég að segja að öllum ætti að vera ljóst, meira að segja hæstv. ríkisstjórn, að þessi mál munu ekki öll klárast á þeim tíma sem eftir er, miðað við starfsáætlun þingsins. Og ég endurtek: Þau munu ekki öll klárast vegna þess að jafnvel þó að þau væru öll mál sem samkomulag væri um, þá þurfum við að vanda til verka, mál þurfa tíma í vinnslu þingsins, þau þurfa að fara til umsagnar, jafnvel þó hæstv. ríkisstjórn telji svo ekki vera, t.d. í máli því sem við ræðum í dag. Lausnin er ekki að lengja þingfundi, (Forseti hringir.) lausnin er að ríkisstjórnin setjist niður, forgangsraði og taki þau mál út sem ekki er nokkur leið að samþykkt verði fyrir vorið. Ég segi nei.