140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við getum auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort vel er að verki staðið í þinginu og hvort vinnubrögð eru góð eða slæm. Hér liggur það hins vegar fyrir að mál, sem er bæði umdeilt í þinginu og í samfélaginu, er afgreitt á methraða úr nefnd.

Það kann að vera rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir að það hafi verið staðfastur vilji meiri hlutans í nefndinni að afgreiða málið óbreytt hvað svo sem kæmi fram í umsögnum (ÁI: Það sagði ég ekki.) eða hvað svo sem kæmi fram í máli gesta nefndarinnar. Það er alveg rétt að meiri hlutinn getur haft þá skoðun. En ég verð hins vegar að segja að það vinnulag sem þarna var viðhaft er að minnsta kosti ekki til fyrirmyndar fyrir vinnubrögð í þinginu, það er ekki til fyrirmyndar að koma með mál inn í þingið, senda það ekki til umsagnar og hafa (Forseti hringir.) það snögga yfirferð að hver gestur nefndarinnar fái fimm til sjö mínútur til að segja skoðun sína.