140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki skilið mig þannig að ég gerði engar athugasemdir við að ekki lægi fyrir álit frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég fór sérstaklega yfir það í ræðu minni.

Ég benti hins vegar hv. þingmanni á að þegar það liggur fyrir, sem það á auðvitað að gera, þá þurfum við líka að spyrja okkur þessara spurninga og breyta vinnubrögðunum eftir því. Það var það sem ég var að reyna að benda hv. þingmanni á. Ég er ekki að segja að markmið um sparnað eigi ekki að liggja fyrir, það má ekki skilja orð mín þannig. Auðvitað er æskilegast að fyrir liggi nákvæmlega hvert markmiðið er. En að mínu mati er kominn tími til þess að við séum ekki að búa til einhverjar tölur sem er nánast vitað að munu ekki standast. Það eru vinnubrögð sem við eigum ekki að viðhafa. Þess vegna svaraði ég hv. þingmanni með þessum hætti.

Auðvitað eiga að liggja fyrir alveg klár markmið um það hver hagræðingin verður í raun og veru og hverju hún eigi að skila í sparnaði o.s.frv. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það.