140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Hv. þingmaður hefur örugglega eins og ég heyrt mjög margar sögur af því þegar fólk eða forsvarsmenn lítilla fyrirtækja hefur reynt að fá úrlausn sinna mála í kerfinu og hefur rekið sig hvað eftir annað á að vera vísað fram og til baka milli stofnana eða sagt að ákveðið mál sé í vinnslu einhvers staðar annars staðar og þar sé beðið eftir niðurstöðu og óljóst hver staðan sé á málinu. Svo líður og bíður og þá kemur í ljós að sú stofnun taldi sig ekki eiga að klára þetta mál eða ráðuneytið taldi þetta eiga að gerast einhvers staðar annars staðar.

Þetta hefur orðið til þess að ár hafa liðið, þrjú ár, þar sem mörg stór veigamikil mál sem varða grundvallarhagsmuni heimila og fyrirtækja hafa verið í lausu lofti. Losarabragurinn er slíkur að á þremur árum er óvissan nánast jafnmikil til að mynda varðandi skuldamál lítilla fyrirtækja og var strax eftir efnahagshrunið. Þetta er auðvitað gífurlega kostnaðarsamt fyrir þá sem í hlut eiga og samfélagið allt. Tjónið af þessu er því mikið og ákaflega dapurlegt að menn skuli ekki læra af reynslunni heldur halda áfram á sömu braut og auka enn á óvissuna og losarabraginn í stjórnsýslunni í stað þess að taka málin föstum tökum.

Mikið var talað um að það þyrfti verkstjórn núverandi hæstv. forsætisráðherra til að koma skikki á hlutina. Í hvað hefur hæstv. forsætisráðherra nýtt tíma sinn í forsætisráðuneytinu? Í að reyna á þrjóskunni einni saman að innleiða einhverjar (Forseti hringir.) kerfisbreytingar eftir eigin höfði og ekki einu sinni eftir eigin höfði, (Forseti hringir.) því að nú erum við að tala um breytingar sem ganga þvert gegn því sem hæstv. forsætisráðherra hefur talað fyrir.