140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli þegar Alþingi tekur þá ákvörðun að leita til þjóðarinnar um leiðbeiningu í máli að allur undirbúningur að slíku sé mjög vandaður. Það getur aldrei orðið þannig að slíkt sé gert í bráðræði eða illa undirbúið vegna þess að það má öllum ljóst vera að almenningur lætur ekki bjóða sér það til lengdar að frá Alþingi streymi mál til atkvæðagreiðslu á meðal þjóðarinnar sem ekki eru nægjanlega vel undirbúin.

Þetta mál, virðulegi forseti, er ekki nægjanlega vel undirbúið. Það hefur komið fram í umræðu á þinginu. Smám saman hafa komið fram gallar á undirbúningnum, gallar á málinu sjálfu. Bent hefur verið á að spurningarnar séu ekki nægilega skýrar og það er vegna þess að við höfum gefið okkur tíma til að ræða þetta í þingsal.

Nú kann vel að vera að margir séu óþreyjufullir eftir því að Alþingi klári þetta mál, gott og vel. En það skiptir miklu meira máli að Alþingi vandi vinnu sína og skili frá sér þannig tillögum að hægt sé fyrir þjóðina að taka afstöðu. Það sem meira er þá verður niðurstaða þjóðarinnar að vera þannig þegar þingið fær hana til sín að hægt sé að vinna með hana.

Ég hef meðal annars áhyggjur af því, virðulegi forseti, hvernig við sjáum það fyrir okkur þegar kosið hefur verið um sjálf drögin, þ.e. hvort þau verði lögð til grundvallar, ekki með eða móti þeim í eitt skipti fyrir öll heldur hvort þau verði lögð til grundvallar, hvað sem það þýðir. Hvað ef það verður mjög mjótt á mununum, ef það verður rétt sjónarmunur á milli þeirra sem vilja það og hinna sem vilja það ekki? Hvað þýðir það fyrir okkur alþingismenn þegar við setjumst niður og reynum að klára þá vinnu að breyta stjórnarskránni á þessu kjörtímabili? Hvaða leiðsögn verður fólgin í því, virðulegi forseti? Hvaða leiðsögn verður fólgin í því ef skammt verður á milli fylkinga hvað varðar þær spurningar sem lagðar eru fram, eins og spurninguna sem snýr að því hvort menn vilji persónukjör í meira mæli? Hvað ef það verður stutt þar á milli og við þurfum að túlka hvað átt sé við með „meira mæli“? Svona er hægt að halda áfram.

Það sem er alvarlegt í þessu er að verið er að senda þau skilaboð til almennings að kosið verði með eða á móti stjórnarskránni, það verði kosið um stjórnarskrána. Ég hef áður gert að umtalsefni í ræðustól þingsins þær skeytasendingar sem við þingmenn höfum fengið, bæði í tölvupóstum og í símaskilaboðum, þar sem farið er fram á að fá að kjósa um stjórnarskrána. Mér finnst vont að sjá hversu margir hafa verið blekktir með þessum málflutningi og halda að það standi til að kjósa um stjórnarskrána, með eða á móti henni. Slík kosning er ekkert á leiðinni og það er ekki verið að leggja upp með slíkri kosningu. Það er verið að leggja upp með einhvers konar skoðanakönnun og því miður ekki vel undirbúinni.

Það er eðlilegt að við þingmenn tökum okkur góðan tíma til að kalla fram þá galla sem eru á málinu í þeirri von að brugðist verði við þeim og það verði þannig úr garði gert að þjóðin geti tekið afstöðu til ákveðinna spurninga og til ákveðinna efnisþátta í þessu máli.

Ég hef rætt töluvert um hugtakið þjóðareign, hvað það þýðir og hvað það þýðir ekki, og hef velt því upp hvers vegna í ósköpunum það orðalag er ekki notað í þeim spurningum sem leggja á fyrir þjóðina ef hugmynd stjórnlagaráðs var sú að um væri að ræða ævarandi ríkiseign. Hvers vegna er verið að vinna með hugtak sem hefur svo óljósa merkingu og hvers vegna í ósköpunum á að leggja upp með það í stjórnarskrá, grunnlögum landsins?

Ég ætla mér að ræða það síðar því að tími minn er á þrotum. Ég vildi nefna þetta varðandi atkvæðagreiðsluna því að mér finnst það skipta máli. Síðan eigum við eftir að ræða auðlindahugtakið, hvernig við ætlum að taka það inn í stjórnarskrána, hvað það þýðir og samspil þess við þá ákvörðun ef við Íslendingar ætlum að koma auðlindamálum okkar þannig fyrir að allar auðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði í ævarandi ríkiseign. Þá þurfum við að leggja mat á það og skilja það og leggja fyrir þjóðina (Forseti hringir.) hvað það þýðir efnahagslega fyrir þjóðina og fyrir stjórnmálalíf þjóðarinnar ef allar auðlindir verða komnar á hendur ríkisins og þar með stjórnmálamanna.