140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:40]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Hér er einbert samgöngumál gert að fjármögnunarmáli, samgöngumál sem hlýtur að þurfa að skoða í samhengi. Þetta varðar kjördæmi hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og það vill svo til að hv. formaður Vinstri grænna er úr sama kjördæmi. Málið er líka tekið hér fyrst á dagskrá þrátt fyrir að þingið eigi við að glíma mun brýnni og erfiðari mál á þeim stutta tíma sem er til stefnu. Ég sé því veruleg líkindi og ég get dregið hliðstæður eða gert samanburð við niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og talið að málið sé ekki í anda þeirrar skýrslu.

Ég vil ítreka spurningar mínar til hv. þingmanns og sérstaklega það að taka þetta mál á dagskrá á undan öðrum brýnum málum sem við höfum hér til umfjöllunar.