140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég freista þess að sefa þá sorg sem greinilega bærist innra með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni yfir hlutskipti Reykvíkinga í samgöngumálum sem er að mínum dómi ekki eins slæmt og hv. þingmaður virðist halda, að hér verði ekkert að gera á næstu tíu árum.

Á næstu tíu árum ætlum við að ráðast í stærsta og umfangsmesta átak sem hér hefur nokkurn tíma verið gert til að efla almenningssamgöngur á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu. Við ætlum líka að verja hundruðum milljóna á allra næstu árum í að bæta umferð fyrir hjólreiðafólk og fyrir gangandi, auk þess sem við ætlum að eyða slysagildrum á þessu svæði. Þeir sem eru vanir því að hugsa bara í mislægum gatnamótum sem kosta 2–3 milljarða hvert finnst ekkert að gert, en þetta er stórátak sem hér er verið að ráðast í og sem við erum mjög stolt af og mælist afar vel fyrir úti í þjóðfélaginu. Um það ríkir þverpólitísk sátt og horfi ég þar til forsvarsmanna allra sveitarfélaga á suðvesturhorninu sem eiga aðild að samkomulagi sem nýlega var undirritað. Við skulum ekki gera lítið úr þessu.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér sérstaklega hljóðs í þessari umræðu eru ræður sem hér hafa verið fluttar þar sem aðkoma mín að Vaðlaheiðargöngum hefur verið fléttuð inn í málflutninginn. Vísa ég þar ekki síst í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar fyrr í dag sem flutti okkur sögulega hugvekju um Vaðlaheiðargöng, rakti sögu málsins, vísaði í ótal fundi, samþykktir, þingmál, fjárlög, fjáraukalög, þingsályktunartillögur, samgönguáætlanir til skamms og langs tíma.

Ég verð að segja að mér fannst ekki mikið til þessarar upprifjunar koma, þótt maðurinn væri ágætlega að sér hvað varðar fundahöld og yfirlýsingar, þingmál og ályktanir, en mín gagnrýni er sú að allt innihald skortir. Það vantaði nefnilega upp á að setja alla þessa fundi og ályktanir í rétt samhengi hlutanna og um það á þessi umræða að snúast.

Svo lengi sem ég man eftir mér á Alþingi hefur verið rætt um Vaðlaheiðargöng. Ég kom inn á þing um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og þá þegar var farið að ræða um Vaðlaheiðargöng og það voru einhverjir þingmenn af því svæði sem höfðu áhuga á þeirri framkvæmd. Menn ræddu önnur göng líka alls staðar á landinu. Þegar komið var fram yfir aldamótin ágerðist þessi umræða og við fórum að sjá þess stað í þingmálum eftir 2005. Ég ætla að staðnæmast við árið 2008, því að það var vorið 2008, nánar tiltekið 29. maí 2008 sem Alþingi samþykkti þingsályktun um Vaðlaheiðargöng. Textinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði gerð í einkaframkvæmd með veggjöldum. Göngin verði fjármögnuð að hálfu af ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár.“

Þetta segir í þingsályktun sem var samþykkt í þessum sal 29. maí 2008. (Gripið fram í: Rétt fyrir hrun.) Þetta er rétt fyrir hrun, það er hárrétt. Síðan verður hrunið og þá breytast viðhorfin. Þá fara að birtast annars konar þingmál með öðrum áherslum. Þannig gerist það að þingsályktun er samþykkt í júnímánuði árið 2010. Einnig þar er fjallað um Vaðlaheiðargöng en nú kveður við allt annan tón. Í greinargerð með þeirri þingsályktun segir, með leyfi forseta

„Vegna stöðu efnahagsmála og alvarlegrar stöðu ríkissjóðs hefur að undanförnu verið rætt um aðkomu lífeyrissjóðanna eða annarra fjárfesta að fjármögnun vegaframkvæmda auk annarra framkvæmda í landinu. Forsendur aðkomu lífeyrissjóðanna eru einkum þær að sjóðirnir fái viðunandi arð af fjárfestingum sínum og fjárfestingarnar séu þjóðhagslega arðbærar. Jafnframt liggur fyrir að ríkissjóður hefur takmarkað svigrúm til að auka skuldbindingar sínar. Þetta þýðir að auknar framkvæmdir verður að fjármagna með veggjöldum. Eftirtaldar framkvæmdir hafa verið skoðaðar í tengslum við aðkomu lífeyrissjóðanna.“

Síðan er hér tafla þar sem greinir frá Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi, Reykjanesbraut og Vaðlaheiði, fjármagnað algerlega með vegtollum. Þetta er vorið 2010. Þarna hefur átt sér stað stefnubreyting. Það eru síðan stofnuð félög um þessar framkvæmdir, á suðvesturhorninu annars vegar og norðan heiða hins vegar, Vaðlaheiðargöng. Það hefur komið í ljós að þeir sem voru í forsvari fyrir lífeyrissjóðina í þessum viðræðum vildu aðskilja þessar framkvæmdir vegna þess að þeir töldu gefið mál að framkvæmdirnar á suðvesturhorninu yrðu arðbærar, mikil áhöld væru um hitt. Það var þetta sem þeir sögðu. Þetta var vorið 2010.

Í septembermánuði 2010 kem ég að þessum málum sem nýr ráðherra samgöngumála. Ég hafði aldrei verið hrifinn af veggjöldum en ég ákvað að láta mig hafa þetta, enda hafði þingið samþykkt þetta og ég var ekki í þeim hópi. Ég ákvað að framfylgja þessari stefnu eins og ég best gæti. Ég fékk forvera minn á ráðherrastóli til að stýra viðræðum við lífeyrissjóðina meðan þær samningaviðræður vörðu. Ég fór norður á Akureyri um haustið, sat þar fund þar sem menn voru vissir um að hægt væri að fjármagna Vaðlaheiðargöng með vegtollum. Á þeirri forsendu og þeirri forsendu einni lýsti ég stuðningi við verkefnið á nákvæmlega sama hátt og ég gerði það sunnan heiða. Tvívegis kallaði ég til fundar sveitarstjórnarmenn af Suðurlandi og suðvesturhorninu til þess að ræða þær framkvæmdir sem hér er getið um og ég vísaði til. Ég sagði: Nú skulum við framfylgja þessari stefnu, ráðast í þessar framkvæmdir en á þeirri forsendu að vegtollar standi straum af kostnaðinum. Hvað gerist þá? Í fyrsta lagi fæ ég í hendur 42 þúsund undirskriftir frá FÍB sem mótmæla vegtollum og sveitarstjórnarmennirnir tóku nú að andæfa og sögðu: Við erum ekki reiðubúin að fallast á þessa ráðagjörð ef á að framkvæma þetta algerlega með vegtollum.

Fram komu tillögur um að setja vegtolla á víðar og dreifa kostnaðinum um alla landsbyggðina. Þessu andmælti ég á þeirri forsendu að útgangspunkturinn hefði verið hinn að fjármagna þessar framkvæmdir einvörðungu með vegtollum á þessu svæði. Þetta var alveg skýrt. Þegar ekki var fallist á þetta var ég heldur ekki með lengur og þá sagði ég: Þá setjum við þessa framkvæmd að nýju inn í samgönguáætlun og látum ræða hana þar á nýjum forsendum. Sama gildir að sjálfsögðu um Vaðlaheiðargöng.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vísaði í fundi sem hefðu verið haldnir í samgöngunefnd sem ég hefði setið 25. mars 2011 og 7. nóvember 2011 líka. En hvað gerðist á þeim fundum? Þá komu fram mjög alvarlegar athugasemdir við fjárhagslegar forsendur Vaðlaheiðarganga. Ég lýsti þá þegar miklum efasemdum um málið, og í kjölfarið og einmitt vegna þessa áréttaði ég afstöðu ráðuneytisins í bréfi til Vegagerðarinnar þar sem vísað er til þess — þetta er 8. júní 2011 — að ég styðji þessa framkvæmd á þeim forsendum að því grundvallarskilyrði sé fullnægt að ætla megi að framkvæmdin verði rekstrarlega sjálfbær. Þetta er alveg skýrt, fullkomlega skýrt. Þetta eru þær forsendur sem þetta mál hvílir á og þetta eru þær forsendur sem sú samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu og er til umfjöllunar í samgöngunefnd byggir á einnig, eða hvað skyldi segja þar um Vaðlaheiðargöng? Á bls. 186 segir, með leyfi forseta:

„Vaðlaheiðargöng eru ekki inni í þessari forgangsröðun“ — og þá er vísað í aðrar framkvæmdir — „en stofnuð hefur verið um þau sérstakt félag sem annast framkvæmdirnar og innheimta veggjöld til að standa undir framkvæmdakostnaði ef af verður.“

Hér segir síðar, á bls. 189, með leyfi forseta:

„Áform um Vaðlaheiðargöng byggjast á sambærilegri hugsun en hugmyndin er sú að aðeins verði ráðist í þá framkvæmd ef tryggt er að hún sé talin fjárhagslega sjálfbær.“

Þetta er alveg skýrt. Þessar forsendur eru fullkomlega skýrar og það er á þeim forsendum og í þessari umgjörð sem málið fer síðan inn í samgöngunefnd en síðan gerist það að hæstv. fjármálaráðherra setur fram það frumvarp sem hér er til umræðu í dag sem byggir á öðrum forsendum.

En þá vil ég segja þetta líka að auki, vegna þess að við erum að vísa í breyttar aðstæður og breyttar forsendur. Við erum að vísa í aðstæður sem voru uppi vorið 2008 annars vegar og haustið 2008 og á komandi missirum þegar menn breyta um kúrs vegna þess að aðstæður á Íslandi höfðu breyst. Hvað er að breytast núna? Er eitthvað að breytast núna? Já, nú er að verða sú breyting að við erum að leggja til viðbótarfjármagn í samgönguáætlun sem gerir ráð fyrir því að stórframkvæmdum verði flýtt. Þá er ég að vísa í Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði og aðrar framkvæmdir. Þetta eru breyttar forsendur fyrir þá sem eru að íhuga þessa stórframkvæmd. Eins og margoft hefur komið fram í dag hefur Vegagerðin sagt í mín eyru og ég veit að það hefur verið sagt líka á fundi samgöngunefndar, sem ég reyndar sat um daginn, að það væri óráð, það væri tæknilega hægt vissulega, að ráðast í tvenn göng á sama tíma. Hvers vegna? Vegna þess, og við skulum ekki gleyma því, að við erum að ráðast í samgöngubætur ekki bara til að bæta samgöngur í landinu, auðvitað fyrst og fremst vegna þess, en við erum líka að horfa til atvinnuástands og Vegagerðin hefur sagt að ef við erum með mörg jarðgöng í vinnslu í einu sé líklegra að við þurfum að flytja inn vinnuafl. Að öðrum kosti getum við treyst á sérþjálfaða íslenska hópa sem eru í þörf fyrir vinnu og það sé æskilegt og heppilegt að ein göng taki við af öðrum.

Það er annar þáttur líka sem Vegagerðin hefur bent á og hann er sá að eftirlit með göngum kostar mikla vinnu líka, sérfræðivinnu sem Vegagerðin annast. Gott eftirlit getur skipt okkur mörg hundruð milljónum í tilkostnaði við göng. Þetta fullyrða sérfræðingar Vegagerðarinnar. Þess vegna mæla þeir gegn því að ráðast í tvenn göng í einu. Eigum við ekki að hlusta á þetta? Eru þetta ekki aðrar forsendur? Er þetta ekki ástæða til að skoða þessi göng í samhengi við aðrar samgönguframkvæmdir sem við erum að ráðast í?

Ég hafði í fyrstu íhugað að blanda mér ekki mikið í þessa umræðu núna vegna þess að þetta er frumvarp sem er á vegum hæstv. fjármálaráðherra og menn eru að skoða fjárhagslegar forsendur þessa, en mér finnst ég ekki geta annað — ekki síst eftir að ég er kallaður til umræðunnar óbeint eins og hér var gert í dag — en reyna að færa þetta mál inn í það samhengi sem við hljótum að skoða það í sem eru samgöngubætur almennt. Það er þetta samhengi hlutanna sem skiptir öllu máli.

Mig langar í blálokin til að víkja að frumvörpum sem liggja fyrir þinginu, hafa verið svolítið umdeild og hafa fengið málefnalega gagnrýni, ágæta og ígrundaða, ég geri ekki lítið úr henni. Grunnhugsunin á bak við sameiningu samgöngustofnana í sameiginlega vegagerð er að land, sjór og loft er sett undir eitt sameiginlegt stjórnsýsluþak annars vegar og síðan búin til stjórnsýslustofnun. Hvers vegna vek ég máls á þessu núna? Kannski er mér það ofarlega í huga vegna ábendinga sem við höfum fengið inn í innanríkisráðuneytið, ráðuneyti samgöngumála, þegar menn hafa heyrt áherslurnar í vegagerð, í göngum og öðru slíku þá vaknar flugbransinn til lífsins að sjálfsögðu og fram koma kröfur um að flýta endurgerð flugvallar á Gjögri til dæmis, að bæta aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli eða annars staðar á landinu. Það er svo mikilvægt þegar við erum að ræða málin að við höfum hið stóra samhengi hlutanna alltaf undir, bæði þegar við erum að fjalla um framkvæmd af þessu tagi og samgöngumál almennt, að horfa til sjávarins, horfa upp í loftið og hvað við erum að gera á vegunum. Við verðum að skoða málin í þessu samhengi.

Að lokum, hæstv. forseti, hvet ég til þess að við gerum nákvæmlega þetta. Mér finnst það eðlileg krafa sem hér kom fram hjá hv. formanni samgöngunefndar, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, að þetta mál og samgönguáætlun verði rædd í einu samhengi, rædd saman, vegna þess að þetta er einn og sami pakkinn. Frá því verður ekki vikist að horfa til þess.