140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið hugsi yfir því hvaða pólitísku umbætur Evrópusambandið ætlar að styrkja eða gera á Íslandi eða vill að séu gerðar á Íslandi. Getur verið að þær pólitísku umbætur tengist eitthvað breytingum á Stjórnarráðinu? Þær eru varla fjármagnaðar af IPA-peningum. Ég fæ það ekki séð. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp.

Ég sé heldur ekki hvaða efnahagslegu umbótum þessi styrktarsjóður á að geta náð fram á Íslandi en viðurkenni að stjórnsýslulegar umbætur geta meðal annars falist í því sem kemur fram í þeim verkefnum sem á að ráðast í varðandi til dæmis Hagstofuna. Svo vitum við líka að ákveðnar „stjórnsýslulegar umbætur“ lúta að landbúnaðinum sem Evrópusambandið hefur talið mikilvægt að gera á Íslandi en mörg okkar höfum ekki séð ástæðu til að hefja hér undirbúning að greiðslustofu eða einhverju slíku þegar ekki er ljóst hvort af aðild verður.

Að einhverju leyti má fullyrða að þetta sé óskylt og kalli á skýringar en þær skýringar get ég ekki veitt hv. þingmanni. Ég vona svo sannarlega að einhverjir úr stjórnarliðinu sem standa að þessu máli komi fyrir okkur og skýri hvað felst í því orðalagi sem þarna er.

Ég vil líka segja að þau góðu verkefni sem ætlunin er að styrkja, t.d. á Suðurlandi, hafa ekkert að gera með pólitískar, efnahagslegar eða stjórnsýslulegar umbætur.