140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:18]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þingflokkarnir muni ekki koma sér saman um þau stóru mál sem á eftir að afgreiða og það mun ekki tefja þingstörf. Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir stígur ekki svo í ræðustól, þegar verið er að ræða fundarstjórn forseta, lengd þinghalda og annað, að hún minnist ekki á þann þingmann sem hér stendur og nokkuð langa ræðu sem sá þingmaður hélt, í 10,5 klukkustundir held ég að það hafi verið. En þeirri ræðu lauk þó á hálfum sólarhring og þá var það búið.

Það var eitthvað annað en hjá hv. stjórnarliðum nú, þeir tala í málþófi í hverju málinu á fætur öðru dögum saman, vikum saman, öllum málum, deilumálum og ágreiningslausum málum. Það er því verulegur munur á því málþófi sem hér er stundað og því sem var fyrir 15, 20 árum sem stóð þá í 10 klst. og lauk með eðlilegum hætti.