140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað margt að ræða á þessum tímapunkti. Ég vildi hins vegar ræða eitt sem við höfum lítið rætt, og er ástæða fyrir því enda tel ég mikilvægt að við séum ekki að þvælast inn í mál eins og forsetakosningar. En ég held að það sé að koma betur og betur í ljós að við hv. þingmenn hefðum átt að nýta tækifærið á þessu kjörtímabili til að skýra þá þætti stjórnarskrárinnar sem eru hvað óljósastir eða réttara sagt sem menn hafa túlkað á ýmsa vegu. Það er afskaplega dapurt að við skulum ekki hafa nýtt tímann sem skyldi og ömurlegt að við skulum ekki hafa getað náð saman um til dæmis það hvernig eigi að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslur.

Ástæðan fyrir því að ég ræði þetta er að ég vil í það minnsta segja mína skoðun á þessu, en ég tel að málum sé þannig fyrir komið að þingrofsrétturinn sé hjá hæstv. forsætisráðherra, alveg sama hver það er. Ég held að miklu máli skipti að það sé ekki neinum vafa undirorpið. En við hv. þingmenn berum hins vegar mikla ábyrgð í þessu efni, að við skyldum ekki hafa gengið fram á þeim tíma þegar menn voru sammála um að það þyrfti að fara í stjórnarskrármálin, að við skyldum ekki hafa borið gæfu til þess á þessu kjörtímabili að vinna hlutina betur. Afleiðingin er sú að við erum ekki enn þá komin á þann stað að geta rætt efnislega um hluti eins og þessa.