140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Já, það er merkilegt að velta fyrir sér hvers vegna þessi stefnubreyting hefur orðið hjá Vinstri grænum í þessum málum en þeir virðast nú vera farnir að gefa ansi mikið eftir, því að einnig fær Evrópusambandsumsóknin að vera óáreitt þar sem hún er án íhlutunar þeirra. Ég gaf meira að segja hv. þingmönnum Vinstri grænna í þarsíðustu viku tækifæri hér til að leiðrétta þann kúrs og gaf þeim tækifæri til að standa við stefnuskrá flokks síns með því að leggja það til að þjóðin fengi að greiða atkvæði um Evrópusambandið samhliða gervitillögum stjórnlagaráðs frá ríkisstjórninni, en það varð nú ekki.

Þeir virðast vera að gefa mikið eftir í þessu máli. Ég bendi á að formaður Vinstri grænna, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kemur einmitt úr landsbyggðarkjördæmi þar sem sjávarútvegur skiptir gríðarlega miklu máli. Mér finnst það mjög táknrænt hjá útgerðarmönnum að hafa ekki sent flotann út á haf til veiða á ný eftir sjómannadaginn til að undirstrika það að þetta er bein árás á sjávarútveginn í heild sinni. Jafnframt er þetta allra tap vegna þess að með því að rústa því góða kerfi sem við búum við tapa allir. Ég er ekki bara að tala um þá sem starfa við fiskvinnslu eða veiðar heldur er ég einnig að tala um hina almennu borgara sem þurfa að fá endurgreiðslur með einhverjum hætti gegnum skattkerfið.

Það verður spennandi að sjá hvort ríkisstjórnin ætli að eiga samtal við útgerðarmenn. Þar upplýsti ríkisstjórnin að hún vilji fara fram með málin í ófriði en ekki friði, og nú er það endanlega ljóst að stjórnarflokkarnir eiga ekki bara í stríði við stjórnarandstöðuna, (Forseti hringir.) nú eru þeir komnir í stríð við Íslendinga sjálfa.