140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Þann 24. maí sl. tilkynnti Landsbankinn um hagræðingaraðgerðir sem meðal annars fela í sér sameiningu og lokun útibúa á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík og sameiningu deilda í höfuðstöðvum bankans. Þess má geta að þessar hagræðingaraðgerðir ná aðallega til útibúa sem Landsbankinn yfirtók hjá Sparisjóði Keflavíkur fyrir rúmu ári. Bankinn áætlar að um 400 millj. kr. sparist á ári með þeim breytingum. Slíkar hagræðingarákvarðanir eru algjörlega á forræði stjórnar hans en ekki eigenda, samanber lög um hlutafélög og eigendastefnu ríkisins. Í eigendastefnunni er skýrt tekið fram að Bankasýsla ríkisins sem fer með eignarhlutina skuli ekki taka þátt í daglegum rekstri banka og sparisjóða.

Lengi hefur verið bent á að aukinnar hagræðingar sé þörf í íslenska fjármálakerfinu. Í ársskýrslu Bankasýslu ríkisins á síðasta ári kemur til dæmis fram að á Íslandi eru um 2.500 íbúar á hvert útibú samanborið við 3–5 þús. íbúa á hvert útibú annars staðar á Norðurlöndunum. Þær hagræðingaraðgerðir sem hafa átt sér stað í fjármálakerfinu að undanförnu hafa verið fleiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni enda er þar auðveldara með samgöngur allt árið um kring. Frá árinu 2005 hefur útibúum í Reykjavík fækkað um 57% en útibúum úti á landi um tæpan þriðjung, þ.e. 32%. Í dag eru rúmir tveir þriðju hlutar allra afgreiðslustaða og útibúa banka og sparisjóða utan höfuðborgarsvæðis og í ársskýrslu Bankasýslu ríkisins á síðasta ári kemur fram að um 5.300 íbúar séu á hvert útibú á höfuðborgarsvæðinu og um 2.100 íbúar á hvert útibú á Suðurnesjum. Hins vegar eru 500–700 íbúar á hvert útibú á Austurlandi og Vestfjörðum.

Á sumum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni er samrekstur útibúa Landsbankans og Íslandspósts. Þá vaknar óneitanlega sú spurning hvort aðgerðir Landsbankans hafi einnig áhrif á rekstur þessara póstafgreiðslustöðva sem væri mjög miður. Þar sem lokanir Landsbankans taka gildi um næstu mánaðamót hefur Pósturinn lagt fram bráðabirgðaáætlun til að tryggja áfram póstþjónustu í þeim bæjarfélögum sem um ræðir. Í áætluninni er gert ráð fyrir að í Grundarfirði verði starfsmaður Póstsins sem muni sinna áfram afgreiðslu í húsnæði Landsbankans en afgreiðslutíminn styttur og dreifingin verður óbreytt og í Súðavík, á Flateyri, Bíldudal og Fáskrúðsfirði mun starfsmaður dreifa og taka á móti pósti og verður með aðstöðu í húsnæði Landsbankans til að byrja með og verður afgreiðslutími styttur.

Þetta fyrirkomulag er tímabundið og hefur Íslandspóstur lýst því yfir að unnið verði að framtíðarlausn sem hentar umsvifum hvers bæjarfélags fyrir sig og er áætlað að þeirri vinnu verði lokið 1. september 2012. Mér er kunnugt um að á sumum ofangreindra þéttbýlisstaða er verið að skoða samstarf við aðra aðila en Landsbankann svo þjónustan haldist óskert.

Önnur leið sem Íslandspóstur hefur verið að þróa fyrir minni þéttbýlisstaði er svokallað pósthús á hjólum. Um Íslandspóst gilda önnur lögmál en um Landsbankann því að hann starfar að hluta til á einokunarsviði og um þá starfsemi gilda lög um póstþjónustu nr. 19/2002 og heyrir starfssvið hans undir innanríkisráðherra.

Í lögunum segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið skal tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, alþjónustu, með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Við úthlutun rekstrarleyfa fyrir póstþjónustu, sbr. 14. gr., getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á rekstrarleyfishafa, einn eða fleiri, um að þeir veiti alþjónustu á starfssvæði sínu.“

Íslandspóstur er því háður samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar um lokun útibúa og Alþingi þarf að taka afstöðu til þess hvort Landsbankinn eigi að starfa með öðrum hætti en aðrir bankar á sama samkeppnismarkaði og þá um leið hvaða afleiðingar það kunni að hafa. Bæði hvað varðar starfsemi Landsbankans og Íslandspósts gera lögin ráð fyrir mjög takmörkuðum afskiptum ráðherra en hvað sem því líður finnst mér tímabært að þessi mál séu skoðuð heildstætt. Ég hef því sem ráðherra byggðamála farið þess á leit við Byggðastofnun að hún taki saman skýrslu um þróun og stöðu á þessari þjónustu og greiningu þjónustuþarfar á landsbyggðinni hvað þetta varðar. Þegar skýrslan verður tilbúin mun ég kynna hana fyrir Alþingi.