140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu.

Hér hefur verið töluverð umræða um áhrif af þessu veiðigjaldi, jafnvel á einstök fyrirtæki. Landsbankinn hefur sagt að það muni kosta bankann 31 milljarð kr. og það er auðvitað talsverð fjárhæð. Í miðri umræðu um veiðigjaldið berast okkur fregnir af því að Landsbankinn, þessi fjármálastofnun sem er eign okkar landsmanna allra, hafi tekið ákvörðun um að loka litlum útibúum allt í kringum landið til að spara 400 millj. kr. sem er einungis lítið brot af þeim kostnaði sem mun falla á bankann ef þetta veiðigjaldafrumvarp nær fram að ganga.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hún telji rétt hjá ríkisstjórninni að þetta háa veiðigjald hafi ekki áhrif á einn eða neinn. Sjáum við ekki einmitt áhrifanna gæta á landsbyggðinni? Það er verið að loka útibúum til þess að fjármálastofnanir eigi upp í þessi veiðigjöld. Hvað finnst hv. þingmanni um það þegar menn tala um að skattleggja einstök byggðarlög með þessum hætti eins og talað hefur verið um í sambandi við veiðigjaldið og einstök fyrirtæki eins og Landsbankann? Hvað finnst hv. þingmanni um það þegar sömu þingmenn koma svo fram og bera því við að þetta sé gert með það að markmiði að styrkja stöðu landsbyggðarinnar?

Ég hefði viljað fá vinkil hv. þingmanns á stöðu landsbyggðarinnar út frá þessu máli og hvað hv. þingmanni finnst um ummæli ýmissa stjórnarliða þess efnis að það frumvarp sem við ræðum hér sé ekki hvað síst hugsað til þess að styrkja stöðu landsbyggðarinnar.