140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:25]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að í Hafinu bláa stendur ekkert að mig minnir um töku sértækra veiðigjalda eða auðlindagjalda, enda hefur það ekki verið ofarlega á stefnuskrá Vinstri grænna heldur það að treysta sjávarútveginn sem atvinnugrein og öfluga útflutningsgrein og jafnframt að á hana séu gerðar kröfur, samfélagskröfur, byggðakröfur o.s.frv. Það er það sem við stöndum fyrir enda segir í samstarfsyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Að treysta atvinnu, efla byggð í landinu og skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar …“

Þessu er líka gerð skil í stefnuskrá Vinstri grænna.

Hitt er alveg hárrétt hjá þingmanninum, ég hef sagt hér að áherslur mínar lágu á byggðatengingar (Forseti hringir.) og að vernda og treysta stöðu sjávarbyggðanna (Forseti hringir.) vítt og breitt um landið og þar skilur að í þessu frumvarpi.