140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, við deilum kannski þeirri pólitísku sýn, ég og hv. þingmaður, að vilja veg landsbyggðarinnar sem mestan. Hins vegar hlýtur það að vera misskilningur hjá annaðhvort hv. þingmanni eða hjá stórum hluta sveitarstjórnarmanna allt í kringum landið og íbúum í þessum byggðarlögum, því að enginn túlkar þetta sem styrkingu við landsbyggðina eins og hv. þingmaður gerir.

Við höfum reynsluna af sitjandi ríkisstjórn. Þeir fjármunir sem renna inn til ríkissjóðs renna ekki aftur út á landsbyggðina. Hvernig getur það til að mynda styrkt sveitarfélagið Fjarðabyggð, sem er í kjördæmi hv. þingmanns, að 3.700 milljónir eigi að renna út úr því sveitarfélagi árlega? Maður hlýtur að vona það innilega að sitjandi ríkisstjórn hyggi ekki á frekari landsbyggðarstyrkingar á þessu kjörtímabili því að ég er ekki viss um að landsbyggðin þoli það.