140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:17]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Þetta er athyglisverð umræða og ég held að hún kalli á miklu dýpri og meiri umræðu um þær ólíku pólitísku skoðanir sem við höfum.

Ef menn kalla eftir einhverri sanngirni í þessu verða menn að horfa til allra þátta málsins. Ég ætla að minna hv. þingmann á, og þakka honum í leiðinni fyrir andsvarið, afkomu útgerðarinnar, atvinnugreinarinnar, á þeim árum sem hann er að vitna til. Ef við skoðum þetta í aðeins víðara samhengi, af því að oft og tíðum er talað um að kvótakerfið sem er um þriggja áratuga gamalt hafi leitt miklar hörmungar yfir þjóðina, þá virðast menn gleyma því að það var stöðvað af Alþingi Íslendinga að hafa frjálsa sókn í fiskstofna. Þrátt fyrir þá ákvörðun gerði þingið um leið kröfu um meiri arðsemi við minni kostnað, með færri skipum, færri fiskvinnslum.

Allir eru sammála um að arðsemin í greininni hefur aukist jafnt og þétt og það hefur skilað sér út í þjóðfélagið. Það er alveg sama hvernig við reynum að teikna það upp, enginn getur mælt því mót að lífskjarabreyting hefur orðið á Íslandi á síðustu þremur áratugum. Þetta er gott þjóðfélag að búa í að allri grunngerð. Við getum verið sammála um það, allir mælikvarðar vísa til þess. Hluti af þeim arði sem hefur gert það mögulegt að bæta lífsskilyrði Íslendinga á þessum síðustu 30 árum hefur komið frá sjávarútvegi. Þrátt fyrir það tala menn eins og þessi grein hafi ekkert lagt til þjóðfélagsins. Ég er ósammála því. Ég held að sjávarútvegurinn hafi á þessum þremur áratugum lagt mikinn og góðan grunn að þeirri lífskjarasókn sem hér hefur átt sér stað.