140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öðruvísi mér áður brá að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson treystir sér ekki í andsvar við hv. þm. Björn Val Gíslason. Það er kannski út af því að hv. þm. Björn Valur Gíslason er gamalt alþýðubandalagsandlit eins og ég að hv. þingmaður treystir sér ekki til að svara hv. þingmanni. En það verður svo að vera.

Það kom fram í ræðu hv. þingmanns að taka ætti 70% af hagnaði í gjald. Nú spyr ég, vegna þess að framkvæmdastjóri LÍÚ talaði um það í fréttunum að hæstv. forsætisráðherra gerði ekki greinarmun á 70% af hagnaði eða umframhagnaði. Gerir hv. þingmaður þann greinarmun og gæti hann farið yfir það hvað verið er að tala um þegar hann talar um að verið sé að skattleggja 70% af hagnaði? Er hann að misskilja eitthvað eins og ýjað var að gagnvart hæstv. forsætisráðherra?