140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur. Þær töluðu allar um afskaplega mikilvæg mál sem ég ætla ekki að endurtaka hér en ég tek undir hvert orð í málflutningi þeirra. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að fordæma þessar ógeðfelldu aðgerðir í Sýrlandi sem eru ógeðslegri en orð fá lýst, en jafnframt hvetja okkur til dáða í að gera hvað við getum til að verja saklaust fólk og þá sérstaklega börn í þessum heimshluta.

Það er nefnilega ekki sjálfsagt að hafa réttindi. Persónufrelsið, friðhelgi einkalífsins er ekki sjálfsagður hlutur og við megum aldrei gleyma því, við verðum í þessari stofnun að standa vörð um það. Ég fór fram á að við fengjum fulltrúa Seðlabankans á fund hv. efnahags- og viðskiptanefndar síðasta mánudag vegna þess að ég hef mjög miklar áhyggjur af því að ákveðin aðgerð hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans fari þvert gegn þessum grundvallarréttindum. Ég vil vekja athygli á því að á Íslandi í dag er ein stofnun sem fylgist með öllum erlendum viðskiptum allra Íslendinga. Hver einasta kreditkortafærsla er aðgengileg þeim sem þar vinna. Það gengur þvert á almennar reglur í þjóðfélaginu. Almenna reglan er sú að ekki sé verið að hnýsast í gögn einstaklinga. Það var gert í löndum sem við viljum alls ekki bera okkur saman við og hjá stofnunum sem eru sumar hverjar ekki lengur til en við höfum mikla skömm á. (Forseti hringir.) Við þurfum að standa vörð um réttindi Íslendinga og við verðum að skoða þessi mál betur, sérstaklega áður en við gefum frekari heimildir.