140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það sé nægilegt fé sem veitt er í viðhald. Það er aldrei nægilegt en auðvitað var umhverfis- og samgöngunefnd þröngur stakkur skorinn um fjárveitingar þannig að við tókum út nokkur verkefni sem við töldum brýn. Það er eflaust hægt að leggja mun meira í viðhald. Tjónið sem kann að verða á samgöngumannvirkjum er næsta fyrirsjáanlegt, m.a. út af því að út á vegina hefur öll þungaumferðin og allir þungaflutningar farið á síðasta einum og hálfum áratug. Það hefur spillt mjög vegum sem ekki voru byggðir fyrir þessa umferð. Ef undirlag skemmist og þarf að skipta um það kostar það gríðarlegan pening.

Hún spyr hvort nægileg áhersla sé lögð á umferðaröryggi. Það er aldrei. Við stefnum að núlllausn og meiri hlutinn setur fram skilmerkilegan rökstuðning þar að lútandi. Hér eru meðal annars tillögur frá meiri hlutanum um viðhald, einbreiðar brýr o.fl. en mér finnst sjálfum á skorta.

Ég tek svo undir sjónarmið um Hornafjarðarfljótið og þakka hv. þingmanni fyrir undirtektir við það. Ég vissi auðvitað að viðbrögð kæmu við því. Það er til skammar. Ég hef sjálfur lent þarna í erfiðleikum og hættu við akstur í myrkri. Það er erfitt að meta fjarlægðir, brúin liggur hærra en landslagið og þar fram eftir götunum þannig að þetta er okkur til skammar. Þarna þurfa að verða úrbætur.

Hvar eigi að fá fjármagn í þetta, er spurt. Við erum að flýta framkvæmdum. Flestar tillögurnar ganga út á að flýta framkvæmdum nema viðhaldið. Þar er bætt í sem og einbreiðar brýr o.fl. Ég lít svo á að þetta séu ekki það stórir peningar að ekki sé hægt í fjárlögum að forgangsraða þannig að finna megi þá 6–8 milljarða sem við leggjum til að komi inn í verkefnið, á mörgum árum reyndar, (Forseti hringir.) fjórum árum. Þetta er ekki einskiptisfjármögnun.